Dagskrá 2015

Kæri lesandi,
velkominn í Listasafnið á Akureyri!

Við heilsum árinu 2015 með fjölbreyttri og spennandi dagskrá þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. HÉR má sjá dagskrána.

Myndlistin getur víkkað sjóndeildarhringinn og gefið okkur nýjar hugmyndir. Við höfum skoðanir og getum látið þær í ljós. Við njótum og upplifum einstök verk á mismunandi hátt því öll erum við jú ólík en á sama tíma er eitthvað sem gerir það að verkum að við finnum til samkenndar. Þannig er lífið og þannig er listin.

Listasafnið á Akureyri leggur áherslu á að fræða, miðla og safna. Á þessu nýja ári stendur til að stórefla fræðslu til nemenda og bjóða velkomna enn fleiri skólahópa í heimsókn í safnið. Við ætlum að auka samvinnu við önnur söfn, skóla og menningarstofnanir á svæðinu. Við ætlum að hlúa að grasrótinni og sýna það nýjasta og ferskasta í íslenskri myndlist. Við ætlum að sinna nærsamfélaginu og sýna það sem er að gerast hér á svæðinu. Við ætlum að rifja upp söguna, varpa ljósi á listamenn og verk sem eiga það margfalt skilið. Við munum líta út í heim og bjóða upp á spennandi alþjóðlega myndlist. Við ætlum að gera allt þetta og meira til. Á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna er það okkur sérstök ánægja að sýna breiðan og fjölbreyttan hóp kvenna á sýningum Listasafnsins.

Við byrjum af krafti með opnunum á nýjum sýningum tíu laugardaga í röð, en alls verða opnaðar 23 sýningar í Listasafninu á árinu. Við hlökkum einnig til blómlegs Listasumars.

Við viljum fá þig oft í heimsókn, verið velkomin í Listasafnið á Akureyri.

Hlynur Hallsson,
safnstjóri Listasafnsins á Akureyri.