Auðkenni – Logohönnun: Tilfinning eða vísindi?

Auðkenni – Logohönnun: Tilfinning eða vísindi?
Þórhallur Kristjánsson.

Þriðjudaginn 1. desember kl. 17 heldur Þórhallur Kristjánsson, grafískur hönnuður og kennari við Myndlistaskólann á Akureyri, Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi undir yfirskriftinni Auðkenni – Logohönnun: Tilfinning eða vísindi? Í fyrirlestrinum fjallar hann um vinnuna á bak við góð merki.

Þórhallur Kristjánsson hefur hannað fjölda þjóðþekktra merkja fyrir fyrirtæki, félagasamtök og sveitarfélög auk þess hefur hann setið í dómnefndum fyrir samkeppnir um merki. 

Hann útskrifaðist sem grafískur hönnuður frá Myndlistaskólanum á Akureyri 1995 og hefur starfað sem slíkur allar götur síðan. Frá 2006 hefur Þórhallur starfað sjálfstætt en var áður hönnuður og hönnunarstjóri á auglýsingastofum í Reykjavík. Hann kennir einnig við Listhönnunardeild Myndlistaskólans á Akureyri. 

Fyrirlesturinn er sá níundi í röð fyrirlestra sem haldnir eru á hverjum þriðjudegi í Listasafninu, Ketilhúsi í allan vetur. Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri. Síðasti Þriðjudagsfyrirlesturinn fyrir jól heldur Guðrún Pálína Guðmundsdóttir 8. desember næstkomandi.