Einn á báti - samspil margra þátta

Einn á báti - samspil margra þátta
Jan Voss.

Jan Voss Með bakið að framtíðinni
Listasafnið á Akureyri
14. mars – 10. maí 2015 

Nú stendur yfir í Listasafninu á Akureyri viðamikil yfirlitssýning á ævistarfi myndlistarmannsins Jan Voss - hálfrar aldar listsköpun með tilheyrandi þróun.  Sýningin er umfangsmikil og er því ekki hægt að gera henni ítarleg skil hér en þess í stað eru nokkrir þættir valdir úr og fjallað sérstaklega um þá, líkt og gert er á hádegisleiðsögninni á fimmtudögum í Listasafninu. Tenging Jans við Ísland hófst fyrir um 40 árum og hefur hann komið sér vel fyrir á Hjalteyri og dvelur þar eins oft og hann getur.

Gamall, morknaður trébátur og lítið vélmenni sem reynir að róa er verk sem staðsett er í vestursalnum. Þetta er verkið á bak við titil sýningarinnar Meðbakiðað framtíðinni, því best er að róa með bakið í þá átt sem stefnt er. Þarna vísar Jan í hvað við erum föst í fortíðinni og hvað hún hefur víðtæk áhrif á núið og framtíðina. Báturinn, hálfónýtur, er þarna tákn fortíðarinnar og vélmenni vísa gjarnan til framtíðar. 

Lestrarhorn og froðubækur 

Í afmörkuðu rými í austursal Listasafnsins hefur Jan gert innsetningu þar sem hann fangar hluta af stemningunni í bókabúðinni Boekie Woekie sem hann rekur ásamt félögum sínum í Amsterdam. Í búðinni eru seldar bækur eftir listamenn og er heimsókn þangað bæði eftirminnileg og einstök upplifun.

Í austursalnum getur áhorfandinn sest við gamalt tréborð og lesið bækur sem þar eru í hillu. Þarna er einnig bókaserían Foam Books; fjölmargar gular, þykkar bækur, án innihalds. Titlar þeirra eru nöfn borga og staða víðsvegar í heiminum sem hugsanlega vísa til símarskráa (e. phone books). Handan bókabúðarinnar í safninu eru mörg ólík verk til sýnis, en brosið færist yfir áhorfandann þegar hann rekur augun í bekk og stól með yfirskriftinni No Lying (bannað að ljúga og/eða bannað að liggja). 

Áhrifavaldar 

Jan Voss fæddist 25. apríl 1945, á lokadögum seinni heimsstyrjaldarinnar í Evrópu. Í bókinni With the Back to the Future, sem gefin var út í tilefni sýningarinnar, lýsir hann sviðinni jörð og niðurlægingu þjóðar sem misst hafði milljónir í stríðinu. Faðir Jans, menntaður listmálari, var nýkominn heim úr stríðinu, en móðirin vann fyrir fjölskyldunni. Faðirinn sá um einkabarnið á daginn milli þess sem hann málaði myndir og er ein þeirra á sýningunni. Daglega þvoði faðirinn dagsverkið burtu af striganum áður en móðirin kom heim og þannig byrjaði hver nýr dagur á hvítum, hreinum dúk. Jan fetaði í fótspor föður síns og nam myndlist. Námið stundaði hann í Düsseldorf sem þá var mjög framsækin í myndlist. Joseph Beuys var meðal samtíðarmanna Jans í Düsseldorf og Dieter Roth kenndi honum þar, báðir tveir miklir áhrifavaldar í myndlist. Jan selur ennþá bækur eftir Dieter Roth í Amsterdam og er virkur þátttakandi í akademíu kenndri við hann.

Faðir Jans lést um borð í árabát sem þeir feðgar höfðu róið út á stöðuvatn, þegar Jan var 11 ára. Jan réri í land og reyndi þannig að bjarga föður sínum en tókst ekki. Það kemur því ekki á óvart að margar þeirra mynda sýningarinnar sem sýna mann í báti séu tilfinningahlaðnar – á mörgum eru árarnar logandi. Þótt að í efnisraunveruleikanum sé það ekki rökrétt gildir það ekki endilega um raunveruleika tilfinninganna og minningu fortíðarinnar. Á myndunum sjáum við ýmist alveg kyrrt vatn eða yfirþyrmandi öldur. 

Listasnobb og mikilfengleiki 

Að lokum er við hæfi að minnast á eitt verka Jans sem lýsir enn og aftur þróuðu skopskyni hans. Í klefanum við vestursalinn er innsetning þar sem garðálfur (algengt garðskraut sem ekki hefur skorað hátt í listheimi hámenningarinnar) er uppi á stalli að rembast við að teygja sig upp í málverk á trönu með löngum pensli. Hann rétt nær að strjúka hluta myndflatarins með grænni málningu og er svo rosalega duglegur að hann fjöldaframleiðir í gríð og erg eitthvað sem í raun er ekkert merkilegt, allra síst frá listrænu sjónarmiði. Hér má sjá grín og ádeilu á listasnobb og smekk annars vegar (garðálfinn) og hins vegar skoplega hlið þess sem sperrir sig og rembist umfram getu. Hver og einn okkar getur sett sig í hlutverk garðálfsins; við erum svo agnarsmá í stórum heimi að rembast við að ná árangri og snerta einhvern mikilfengleika. Titillinn Hinn stóri meistari undirstrikar enn fremur innihald verksins en gefur, að vanda, til kynna margræða merkingu. Þetta verk kallar fram bros og vekur mann til umhugsunar eins og reyndar flest verkanna á sýningunni. 

Guðrún Pálína Guðmundsdóttir,
fræðslufulltrúi Listasafnsins á Akureyri.