Þriðjudagsfyrirlestur: Aðalsteinn Þórsson

Þriðjudagsfyrirlestur: Aðalsteinn Þórsson
Aðalsteinn Þórsson.

Þriðjudaginn 9. mars kl. 17-17.40 heldur Aðalsteinn Þórsson, myndlistarmaður, Þriðjudagsfyrirlestur undir yfirskriftinni Bakgrunnur og starf Einkasafnsins – verk myndlistarmannsins Aðalsteins Þórssonar. Þar mun hann fjalla um feril sinn sem myndlistarmanns og verkefnið Einkasafnið

Aðalsteinn hefur um árabil rekið Einkasafnið sem nú er staðsett í Kristnesi. Í verkefninu er gengið út frá því að neysluafgangar listamannsins séu menningarverðmæti. Á svipaðan hátt og litið er á hefðbundna sköpun sem menningarverðmæti. Aðalsteinn heldur til haga öllu því sem gengur af sinni daglegu neyslu og auk söfnunarinnar fer fram skráning, m.a. í formi ljósmynda og myndbanda. Fylgst er með niðurbroti og öðru lífrænu ferli á öllu því sem viðkemur söfnuninni. Á þennan hátt gefur Einkasafnið heildarmynd af fyrirferð einstaklingsins í umhverfinu og skoðar um leið áhrif hennar á umhverfið.

Aðalsteinn Þórsson nam við Myndlistaskólann á Akureyri og síðar í Hollandi þar sem hann útskrifaðist með Master of Arts gráðu frá Dutch Art Institute 1998. Hann hefur síðan starfað sem myndlistarmaður, lengst af í Rotterdam, en flutti heim í Eyjafjörðinn 2016. Aðalsteinn er þekktur fyrir fjölbreytni í efnisnotkun og vinnubrögðum. Hann hóf ferilinn sem málari en aðrar nálganir sóttu fljótlega á, þó enn sé teiknað og málað.

Enginn aðgangseyrir er á fyrirlesturinn. Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Gilfélagsins og Myndlistarfélagsins á Akureyri. Síðustu fyrirlestra vetrarins flytja Magni Ásgeirsson, tónlistarmaður, og David Molesky, myndlistarmaður.