Ólíkar sýningar Listasafnsins

Nú standa yfir tvær frábærar en mjög ólíkar sýningar í salarkynnum Listasafnsins: annars vegar sýning Mireyu Samper, Endurvarp, í Listasafninu og hins vegar listverkefnið RÓT í Listasafninu, Ketilhúsi.

Mireya Samper útskrifaðist frá Ecole d’Art de Luminy í Marseille í Frakklandi 1993. Hún stundaði einnig nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1987-90 og Academia di Bologna á Ítalíu 1992. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga á Íslandi og erlendis auk þess að taka þátt í fjölmörgum samsýningum. Mireya er stofnandi, framkvæmdastjóri og listrænn stjórnandi alþjóðlegu listahátíðarinnar Ferskir vindar.
Sýningin Endurvarp endurspeglar ferli og áhrif sem Mireya hefur unnið með og upplifað, bæði á Íslandi og í Japan, undanfarin misseri. Fjallað er um innri og ytri kosmós, óendanleikann, eilífðina, endurtekninguna og hringrásina – innri og ytri hringrás.

Á sýningunni er að finna innsetningu, tví- og þrívíð verk eftir Mireyu ásamt verkum eftir japönsku gestalistamennina Tomoo Nagaii sem samdi hljóðverk með innsetningunni og vídeó verk eftir Higuma Haruo unnið uppúr samvinnu hans og Mireyu með sömu innsetningu. Innsetningin er einskonar „íhugunarrými“ – gestum sýningarinnar býðst að fara inn í rýmið, setjast eða leggjast og gefst þar tækifæri til íhugunar. Þá er einnig japanska gjörningalistakonan Kana Nakamura þátttakandi í sýningunni. Pappírsverkin á sýningunni eru öll unnin á japanskan washi pappír og flest þeirra með tækni sem Mireya hefur þróað og gerir þau ljóshleypin og kallar fram nýja eiginleika í pappírnum. 

Hugmynd að morgni – fullskapað verk að kvöldi

Hvað gerist þegar hópur skapandi einstaklinga kemur saman til að vinna að sameiginlegri hugmynd? Ómögulegt er að sjá það fyrir, en niðurstaðan verður áhugaverð. RÓT varð til einn vetrardag á sameiginlegri vinnustofu þriggja listamanna; Freyju Reynisdóttur, Karólínu Baldvinsdóttur og Jónínu Bjargar Helgadóttur. Þær langaði að nýta margföldunaráhrifin sem gott samstarf framkallar.

Listamenn úr ólíkum listgreinum sameinast í gerð verka sem eru þróuð á staðnum með ólíkum áherslum. Verkin eru unnin samdægurs og sýnd. Hver dagur hefst á hugflæði þar sem allar hugmyndir eru viðraðar þangað til rótin, sem allir geta unnið út frá, er fundin. Sýningin þróast og breytist því fyrstu tvær vikur verkefnisins þar sem verk eru unnin annan hvern dag og í aðrar tvær vikur verða þau til sýnis. Allt ferlið er opið gestum og gangandi. Velkomin.