Gildagur á laugardag

Sjötti Gildagur ársins í Listagilinu er laugardaginn 13. júlí og þar sem Listasumar er í fullum gangi verður nóg um að vera.

Í Listasafninu á Akureyri er fjöldi spennandi sýninga í boði. Safnið er opið kl. 10-17 og í tilefni dagsins verður enginn aðgangseyrir milli kl. 14-17.

Plötusnúðurinn Vélarnar þeytir skífum við Gil kaffihús og skapar Listasumarsstemningu. Í Mjólkurbúðinni er seinni sýningarhelgi myndlistarsýningarinnar Hugleiðingar um Upprunan. Hjá Gilfélaginu í Deiglunni verður Tískusvapp en sá viðburður krefst skráningar og eingöngu fyrir þátttakendur. Einnig verður tilboð í verslunum og blöðrur, krítar og sápukúlur í boði fyrir börnin hjá Sjoppunni.

Opnuð verður ljósmyndasýningin Akureyri-Grundarfjörður í RÖSK RÝMI og listhópurinn RÖSK býður börnum í örsmiðju.

Vegna Gildagsins er Listagilið einungis opið gangandi vegfarendum milli kl. 14-17. Hægt verður að komast að bílastæðum efst og neðst í Listagilinu. Hægt er að sjá kort af lokun á www.akureyri.is

*Gildagurinn er hluti af Listasumri.

Dagskrá dagsins (með fyrirvara um breytingar)

Kl. 10-17
Listasafnið á Akureyri / Akureyri Art Museum
Enginn aðgangseyrir milli kl. 14-17 í tilefni dagsins á yfirstandandi sýningar. Hægt er að sjá nánar um sýningar safnsins á www.listak.is

Kl. 12-17
Mjólkurbúðin - Salur Myndlistarfélagsins
Hugleiðingar um Upprunan - myndlistarsýning
Sigríður Huld Ingvarsdóttir sýnir verk sem hún hefur unnið síðustu þrjú ár. Gæruskinn, hestar, kindur, fuglar og náttúran spila stórt hlutverk í verkum hennar sem öll eru unnin með klassískum miðlum, olía á striga, vatnslitum og kolateikningar.

Kl. 13-17
Sjoppan vöruhús
Gildagur í Sjoppunni 13.7
Það verður aldeilis fjör í Sjoppunni á Gildeginum. Kynning og sala hefst á vönduðum eyrnalokkum frá Lisa Kroeber. Tilboð verður á öllum lakkrís frá Lakrids og litríku töskurnar frá Sun Jellies verða á flottu verði í tilefni dagsins. Einnig verða blöðrur, krítar og sápukúlur í boði fyrir börnin.

Kl. 14-17
Gil kaffihús
Vélarnar Ari Lúðvíkson
Plötusnúðurinn Vélarnar þeytir skífum fyrir framan kaffihúsið í tilefni Listasumars og veitingar í boði á góðu verði.

Kl. 14-17
Rösk Rými
Ljósmyndasýning-Akureyri-Grundarfjörður!
Sverrir Karlsson áhugaljósmyndari opnar ljósmyndasýninguna Akureyri-Grundarfjörður. Sverrir er fæddur og uppalinn á Akureyri, hann hefur þó verið búsettur í Grundarfirði síðastliðin 30 ár. Hann hefur tekið myndir allt sitt líf og sýnir hér vel valdar myndir frá Akureyri og Grundarfirði. Einnig býður RÖSK upp á örsmiðju fyrir börn.

Kl. 16-22.30
Gilfélagið / Deiglan
Tískusvapp
Viðburður á vegum Listasumars þar sem skráðir þátttakendur geta tekið þátt í fataskiptimarkaði. Athugið að viðburðurinn er lokaður og eingöngu fyrir skráða þátttakendur. Skráning og nánari upplýsingar undir viðburðinum.

________________________________

Í tilefni dagsins væri einnig gaman að heimsækja:

kl. 9-14
Flóra - verslun, vinnustofur, viðburðir
Hafnarstræti 90
Til sölu og sýnis verk og vörur eftir nefnda sem ónefnda listamenn, hönnuði, heimaframleiðendur, bændur og aðra frumskapendur.

Kl. 14-15
Davíðshús - Minjasafnið á Akureyri
Bjarkarstígur 6
Þorsteinn Kári í Davíðshúsi - Allar gáttir opnar
Þorsteinn Kári mun koma fram í Davíðshúsi og spila lög af nýútkominni plötu sinni Eyland. Þorsteinn leggur mikið upp úr íslenskri textagerð og hefur Davíð Stefánsson verið honum hugleikinn lengi og því staðsetning tónleikanna afar viðeigandi. Verið því velkomin að sjá tvo heima mætast.
*Enginn aðgangseyrir.