Hagkvæmt að kaupa árskort

Ókeypis verður inn á Listasafnið til og með 2. september en eftir það er aðgangseyrir 1.500 krónur. Aftur á móti býðst fólki að kaupa árskort á afar hagstæðu verði eða á aðeins 2.500 krónur og getur fólk þá heimsótt safnið eins oft og það lystir í heilt ár frá og með kaupdegi án þess að borga fyrir. 

Hlynur F. Þormóðsson kynningarstjóri Listasafnsins segir að sala árskorta hafi farið vel af stað. „Listasafnið er svo gjörbreytt frá því sem áður var og ég held að þetta verði vinsæll samkomustaður fólks, bæði kaffihúsið nýja og svo allar sýningarnar sem hægt er að skoða. Það er því ekki spurning að fólk á að tryggja sér árskort til að geta valsað um salina að lyst og notið fjölbreyttra listsýninga árið um kring,“ segir Hlynur.