Hekla Björt og Ragnar Kjartansson opna sýningar

Hekla Björt og Ragnar Kjartansson opna sýningar
Hekla Björt Helgadóttir.

Laugardaginn 28. ágúst kl. 12-23 verða tvær nýjar sýningar opnaðar í Listasafninu á Akureyri. Annars vegar sýning Heklu Bjartar Helgadóttur, Villiljóð, og hins vegar sýning á nýju verki eftir Ragnar Kjartansson, Undirheimar Akureyrar, sem unnið var sérstaklega fyrir svalir Listasafnsins. Boðið verður upp á listamannaspjall með Ragnari kl. 15 og er stjórnandi þess Hlynur Hallsson, safnstjóri.

Ljóð í þrívíðu formi

Hekla Björt Helgadóttir vinnur jöfnum höndum sem myndlistarmaður og skáld. Verk hennar eru einlæg, hnyttin og draumkennd og oft undir sterkum áhrifum frá leikhúsi og gjörningalist. Hekla hefur sett upp einkasýningar og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum og gjörningaviðburðum. Einnig er hún ein af stofnendum og starfrækjendum listahópsins Kaktuss á Akureyri.

Villiljóð er sýning ljóðsins í þrívíðu formi. Ljóðið er unnið í formi skúlptúra og annars konar myndlistarverka til að má út mörkin á milli miðlanna.

Tilvísun í akureyrskt samfélag

Ragnar Kjartansson er einn af virtustu listamönnum þjóðarinnar – þekktur fyrir vídeóverk, málverk, gjörninga og innsetningar. Verkið Undirheimar Akureyrar hefur beina tilvísun í akureyrskt samfélag, eins og Ragnar orðar það sjálfur: „Það er sígild mýta að á Akureyri sé allt aðeins meira í lagi en annars staðar.“

Það örlar oft á kaldhæðni í verkum Ragnars og koma þau áhorfandanum sífellt á óvart með ákveðinni framsækni tengdri þjóðarsálinni, sögunni og tilvist listamannsins innan samfélagsins eða utan þess.

Ragnar Kjartansson er fæddur í Reykjavík 1976. Hann lauk námi frá myndlistadeild Listaháskólans 2001 og var gestanemandi í Konunglegu Akademíunni í Stokkhólmi 2000. Hann stundaði auk þess nám við Hússtjórnarskólann í Reykjavík 1996-97. Ragnar hefur haldið einkasýningar í mörgum af virtustu listasöfnum heims s.s. Barbican Center í London 2016,  Kunstmuseum í Stuttgart í Þýskalandi 2019 og Metropolitan Museum of Art í New York í Bandaríkjunum 2019. Hann var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 2009.

Sýningarstjóri: Hlynur Hallsson.