Hugmyndaheimur fatahönnunar

Hugmyndaheimur fatahönnunar
Anita Hirlekar.

Þriðjudaginn 9. febrúar kl. 17 heldur Anita Hirlekar fatahönnuður Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi undir yfirskriftinni Hugmyndaheimur fatahönnunar. Þar mun hún fjalla um sína eigin hönnun og ræða ýmsar hliðar fatahönnunar m.a. hugmyndavinnu og þróunarferli. 

Anita Hirlekar útskrifaðist með BA gráðu í fatahönnun með áherslu á prent 2012 og MA í fatahönnun með áherslu á textíl 2014 úr Central Saint Martins í London. Í náminu vann Anita hjá hjá Christian Dior Couture í París og Diane Von Furstenberg í New York. Hún hefur unnið sjálfstætt fyrir fyrirtæki eins og J Crew, Ashish Gupta og Diesel Bandaríkjunum og Bvlgari á Ítalíu. Hún vinnur einnig að eigin fatamerki og hefur sýnt á tískuvikum í London og París. Anita var tilnefnd til íslensku Hönnunarverðlaunanna 2015 fyrir Masterslínu sína frá Central Saint Martins.

Fyrirlesturinn er sá fjórtándi í röð fyrirlestra sem haldnir eru á hverjum þriðjudegi í Listasafninu, Ketilhúsi í allan vetur. Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Háskólans á Akureyri, Myndlistaskólans á Akureyri, Gilfélagsins og Myndlistafélagsins. Á meðal annarra fyrirlesara vetrarins eru Claudia Mollzahn, Kristín Margrét Jóhannsdóttir, Klængur Gunnarsson og Freyja Reynisdóttir og Mille Guldbeck.