Leiðsögn og sýningarlok

Leiðsögn og sýningarlok
Louisa Matthíasdóttir, 1992.

Fimmtudaginn 8. febrúar kl. 12.15-12.45 verður boðið upp á síðustu leiðsögnina um sýningu á verkum Louisu Matthíasdóttur, Stúlka með hjól, en henni lýkur næstkomandi sunnudag 11. febrúar. Guðrún Pálína Guðmundsdóttir, fræðslufulltrúi, tekur á móti gestum og fræðir þá um sýninguna og einstaka verk. Aðgangur er ókeypis.

Louisa Matthíasdóttir (1917-2000) var einn af framsæknustu listamönnum sinnar kynslóðar. Heilir og skýrir myndfletir og tærir og einfaldir litir, einkenna verk hennar. Louisa stundaði nám í Evrópu og í Bandaríkjunum og var búsett í New York frá árinu 1942. Hún hélt þó sambandi við Ísland og í verkum hennar má glöggt sjá áhrif íslensks landslags og birtu. Louisa málaði einnig uppstillingar, samferðafólk og sjálfsmyndir sem sjá má á þessari sýningu. 

Sýningin Stúlka með hjól er byggð á sýningunni Kyrrð sem Listasafn Reykjavíkur setti upp á Kjarvalsstöðum 2017. Verkin á sýningunni eru fengin á láni hjá Listasafni Reykjavíkur, hjá Temmu Bell dóttur Louisu og úr einkasafni.

Með sýningu á verkum Louisu Matthíasdóttur var framhaldið röð sýninga á verkum merkra íslenskra myndlistarkvenna. Sýningin Stúlka með hjól kemur þannig í kjölfarið á sýningum á verkum Elísabetar Geirmundsdóttur og Nínu Tryggvadóttur í Listasafninu á Akureyri.