Leiðsögn um sýningu Mireyu Samper

Fimmtudaginn 2. júlí kl. 12.15-12.45 verður boðið upp á leiðsögn í Listasafninu um sýningu Mireyu Samper, Endurvarp. Hlynur Hallsson safnstjóri tekur á móti gestum og fræðir þá um sýninguna og einstaka verk.

Á sýningunni er að finna innsetningu og tví- og þrívíð verk eftir Mireyu ásamt verkum eftir japönsku gestalistamennina Tomoo Nagaii og Higuma Haruo. Þá er japanska gjörningalistakonan Kana Nakamura einnig þátttakandi í sýningunni. Innsetningin er einskonar „íhugunarrými“ þar sem gestum sýningarinnar býðst að fara inn í rýmið og setjast eða leggjast og íhuga. Pappírsverkin á sýningunni eru öll unnin á japanskan washi pappír og flest þeirra með tækni sem Mireya hefur þróað og gerir þau ljóshleypin og kallar fram nýja eiginleika í pappírnum.

Mireya Samper útskrifaðist frá Ecole d’Art de Luminy í Marseille í Frakklandi 1993. Hún stundaði einnig
nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1987-90 og Academia di Bologna á Ítalíu 1992. Hún hefur
haldið fjölda einkasýninga á Íslandi og erlendis auk þess að taka þátt í fjölmörgum samsýningum. Mireya
er stofnandi, framkvæmdastjóri og listrænn stjórnandi alþjóðlegu listahátíðarinnar Ferskir vindar.
Sýningin Endurvarp endurspeglar ferli og áhrif sem Mireya hefur unnið með og upplifað, bæði á Íslandi og
í Japan, undanfarin misseri. Fjallað er um innri og ytri kosmós, óendanleikann, eilífðina, endurtekninguna
og hringrásina – innri og ytri hringrás.