Lokað vegna framkvæmda og uppsetningar á nýjum sýningum

Listasafnið er nú lokað vegna framkvæmda og uppsetningar á nýjum sýningum. Laugardaginn 24. febrúar kl. 15 verður aftur opnað með samsýningunni Sköpun bernskunnar 2018 og sýningu Helgu Sigríðar Valdemarsdóttur, Kyrrð.

Þetta er fimmta sýningin undir heitinu Sköpun bernskunnar. Hún er sett upp til þess að örva skapandi starf og hugsun skólabarna á aldrinum tveggja til sextán ára. Þátttakendur hverju sinni eru börn, starfandi listamenn og Leikfangasýningin á Akureyri. Sköpun bernskunnar er því samvinnuverkefni í stöðugri þróun og er hver og ein sýning sjálfstæð og sérstök.

Sýningin hefur vakið verðskuldaða athygli og var valin til þátttöku í Barnamenningarhátíð Mennta- og menningarmálaráðuneytisins 2017. Þemað að þessu sinni er tröll í víðum skilningi sem vísar í þjóðsögur Íslendinga. Á sýningunni mætast þátttakendur og eiga listrænt samtal við sýningargesti.

Þátttakendur að þessu sinni eru Georg Óskar, Ninna Þórarinsdóttir, Sigga Björg Sigurðardóttir, Leikfangasýningin á Akureyri, Grímseyjarskóli, Oddeyrarskóli og leikskólarnir Iðavöllur og Krógaból.

Sýningarstjóri: Guðrún Pálína Guðmundsdóttir.

Í umbreytingum samtímans og ati hversdagsins leitar manneskjan að huglægum rýmum til að öðlast innri ró. Slík rými eru víða og margvísleg: úti í náttúrunni, taktföst sundtök, gönguferð með hundinn, jógastaða, góð vinasambönd. Þar sem kyrrð finnst, stilla vinnst.

Þörfin fyrir, og leitin að, jafnvægi og kyrrð er ævagömul. Konur hafa til að mynda lengi fundið sér kyrrðarrými með ástundun handverks. Sitjandi prjónandi fá þær hvíld frá amstri, frið fyrir áreiti, þær eru uppteknar og löglega afsakaðar, fá að vera með sjálfum sér, í eigin tómi, í rými sem þær þurfa að taka sér, hafa skapað sér.

Helga Sigríður Valdemarsdóttir (f. 1975) útskrifaðist af Mynd- og handíðabraut VMA 1997 og lauk diplómanámi í myndlist frá Myndlistaskólanum á Akureyri 2003. Á sýningunni Kyrrð notar hún ljósmyndir, málverk og innsetningu til að fjalla um kyrrðarrými konunnar.

Sýningarstjóri: Hlynur Hallsson.