Mannlegt landslag: gjörningur í Listasafninu, Ketilhúsi

Listasafnið á Akureyri tekur þátt í Listahátíð í Reykjavík þegar Þóra Sólveig Bergsteinsdóttir fremur gjörninginn Mannlegt landslag í Listasafninu, Ketilhúsi kl. 15 laugardaginn 30. maí. Aðgangur er ókeypis.

Mannlegt landslag er tilvistarstúdía og skoðun á því að vera í andartakinu og í sköpunarferli undir áhrifum af stað og stund, og í sambandi við áhorfendur innan rýmisins; Að setja sig í aðstæður og skoða nánar val sem er tekið og hvert það leiðir.

Þóra Sólveig spinnur á staðnum og börn sem taka þátt í gjörningnum hafa ákveðnu verkefni að fylgja í sambandi við hreyfingar listamannsins. Börnin eru að koma fram í fyrsta skipti og hluti af verkinu er að sjá hvernig þau bregðast við umhverfinu, stað og stund, sem og spuna listamannsins sem einnig er móðir þeirra.

Gjörningurinn er hluti af sýningunni Sköpun bernskunnar sem opnaði í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi 9. maí síðastliðinn og stendur til 14. júní næstkomandi. Sýningin stendur til 14. júní og er opin þriðjudaga til sunnudaga kl. 12-17, en frá 2. júní kl. 10-17. Aðgangur er ókeypis.