Opið alla páskana

Yfirstandandi sýningar í Listasafninu á Akureyri verða opnar alla páskahátíðina kl. 12-17 og sem fyrr er enginn aðgangseyrir.

Sýning þýska listamannsins Jan Voss Með bakið að framtíðinni stendur nú yfir í Listasafninu á Akureyri, en spurningin „hvað er mynd?“ er undirliggjandi þáttur í viðfangsefnum Voss. Þó að óhefðbundnar vinnuaðferðir hans hafi stöku sinnum kallað fram svipleiftur þess sem gætu hafa verið svör þá hefur leit hans – sem spannar ólíka miðla – ekki bent á neitt umfram það sem væri speglun af einhverju öðru.

Jan Voss er fæddur 1945 í Þýskalandi og búsettur í Amsterdam. Sem ungur listamaður vann hann við að teikna teiknimyndasögur sem hann prentaði sjálfur og gaf út. Hann gekk síðar til liðs við félaga sína þær Henriëtte van Egten og Rúnu Thorkelsdóttur og síðastliðin 30 ár hafa þau í sameiningu rekið hina einstöku jaðar bókaverslun Boekie Woekie en þar eru seldar bækur eftir listamenn. Í tilefni sýningarinnar kom út á vegum Listasafnsins á Akureyri vönduð bók á ensku eftir Jan Voss, With the Back to the Future. 

Í Listasafninu, Ketilhúsi gefur að líta yfirlitssýningu á verkum Iðunnar Ágústsdóttur en tilefni sýningarinnar er 75 ára afmæli listakonunnar. Iðunn er fædd og uppalin á Akureyri, dóttir Elísabetar Geirmundsdóttur sem oft er nefnd listakonan í Fjörunni. Iðunn hefur fengist við myndlist síðan 1977 en fyrsta einkasýning hennar var haldin 1979 í Gallerí Háhól. Iðunn var einn meðlima Myndhópsins sem stofnaður var árið 1979 og var meðal annars formaður hans og gjaldkeri um tíma.

Iðunn vann aðallega með olíuliti og pastelkrít í verkum sínum. Hennar helstu viðfangsefni á ferlinum eru landslagið, náttúran, fólk og hið dulræna. Hún hefur haldið fjölmargar einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga bæði hérlendis og erlendis. Flest verka Iðunnar eru í einkaeigu en einnig í eigu ýmissa fyrirtækja og stofnana hér heima og erlendis. Yfirlitssýningin er sú fyrsta sem haldin er á verkum hennar en á sýningunni er áhersla lögð á olíu og krítarverk. Sýningarstjóri er Eiríkur Arnar Magnússon myndlistarmaður, sonur Iðunnar.