Opnun á laugardaginn

Opnun á laugardaginn
Ieva Epnere, Green School, 2017.

Laugardaginn 1. júní kl. 15 verður myndlistarsýningin Talaðu við mig! / Runā ar mani! / Talk to Me! opnuð í Listasafninu á Akureyri. Þar verða sýnd verk nítján lettneskra listamanna. 

Yfirskrift sýningarinnar gefur til kynna þverstæðukenndar aðstæður: Á sama tíma og samskipti verða tíðari gerist það æ sjaldnar að fólk talar saman augliti til auglitis. Þessi staða getur þó orðið tilefni til þess að einstaklingar og menningarheimar mætast í fyrsta sinn. Lettnesk samtímalist er í sókn og á sýningunni er því haldið fram að frelsi grundvallist á tengslum. Í verkunum sem valin hafa verið til sýnis kryfja lettneskir listamenn sjálfsmynd sína og leit að lífvænlegri framtíð. Jafnframt er gefið í skyn að samtímalistasafnið geti verið mikilvægur vettvangur samskipta þar sem tekist er á um samveru og pólitískt minni til þess að leysa ráðgátur framtíðar. Sýningin er hluti af fullveldisdagskrá Lettlands og verkin koma öll úr safneign Lettneska þjóðlistasafnsins í Ríga. 

Listamennirnir eru: Andris Breže, Arturs Bērziņš, Dace Džeriņa, Ģirts Muižnieks, Ieva Epnere, Inga Meldere, Katrīna Neiburga, Kaspars Podnieks, Krišs Salmanis, Kristaps Epners, Kristaps Ģelzis, Leonards Laganovskis, Maija Kurševa, Mārtiņš Ratniks, Raitis Šmits, Rasa Šmite, Vija Celmiņš, Vilnis Zābers, og Zenta Dzividzinska. Sýningarstjórar: Astrida Rogule og Æsa Sigurjónsdóttir. 

Dagskrá í tengslum við Talaðu við mig! / Runā ar mani! / Talk to Me! hefst föstudaginn 31. maí kl. 15 með pallborðsumræðum. Þar ræða sýningarstjórnarnir Astrida Rogule og Æsa Sigurjónsdóttir, ásamt Inese Baranovska listfræðingi, við listamennina Dace Džeriņa, Ieva Epneri, Kristaps Epneri, Mārtiņš Ratniks og Raitis Šmits um hlutverk samtímalista í staðbundnu og heimsvæddu samhengi. Umræðurnar verða á ensku. 

Dace Melbārde menntamálaráðherra Lettlands og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra Íslands opna sýninguna. Māra Lāce safnstjóri Lettneska þjóðlistasafnsins verður jafnframt viðstödd opnun ásamt áðurnefndum listamönnum. 

Frekari dagskrá verður auglýst síðar í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. 

Sýningin er opin alla daga kl. 10-17. 

Leiðsögn um sýningar Listasafnsins á Akureyri er alla fimmtudaga kl. 15.30 á ensku og kl. 16 á íslensku. 

Kynningarmynd: Ieva Epnere, Green School, 2017 (stilla úr vídeóverki).