Síðasta sýningavika framundan

Síðasta sýningavika framundan
Frá Vísitasíum.

Framundan er síðasta vika sýninga Ann Noël, Teikn og tákn, og Bryndísar Snæbjörnsdóttur og Mark Wilson, Vísitasíur, en báðum sýningum lýkur næstkomandi sunnudag, 15. janúar.

Ann Noël, fædd á Englandi 1944, hefur verið búsett í Berlín frá 1980. Bakgrunnur hennar er í grafískri hönnun, prenti, ljósmyndun, málun og gjörningum.Eftir útskrift úr grafískri hönnun 1968, frá Bathlistaakademíunni í Corsham, vann hún með Hansjörg Mayer í Stuttgart, en hann var einn af fyrstu útgefendum bókverka. Þessi reynsla kom sér vel þegar henni bauðst að vinna sem aðstoðarmaður Dick Higgins, útgefanda hjá The Something Else Press í New York. Þar kynntist hún Emmett Williams (1925-2007), ritstjóra forlagsins og fjölmörgum Fluxus listamönnum.

Snemma á níunda áratugnum varð hún virkur meðlimur í Fluxus hreyfingunni og tók þátt í gjörningahátíðum víða um heim, einkum í samvinnu við eiginmann sinn Emmett Williams. Hún fremur ennþá gjörninga innan Fluxus Art
Group. Einnig hefur hún sjálf gefið út mörg af sínum eigin bókverkum í gegnum árin.

Sýningarstjóri: Guðrún Pálína Guðmundsdóttir.

HÉR má sjá málþing um Ann Noël og fluxus-hreyfinguna sem haldið var 26. september 2021.

HÉR má sjá heimildamynd um Ann Noël eftir rússneska leikstjórann Vadim Zakharov.

Þverfaglegt myndlisarverkefni

Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson vinna saman að þverfaglegum myndlistarverkefnum í listasöfnum víða um heim. Þau vinna jafnt með sérfræðingum sem leikmönnum og í verkum sínum skoða þau birtingarform dýra í samfélagslegu, menningarlegu og umhverfislegu samhengi. Verk þeirra afhjúpa menningartákn, sýna fram á hefðir og viðbrögð manna gagnvart dýrum, um leið og þau varpa ljósi á spurningar um náttúruvernd og ólíka afstöðu manna til útrýmingarhættu lífríkisins í vistfræðilegu samhengi.  

Vísitasíur er sýning á verkum þeirra og hluti af listrannsóknarverkefninu Ísbirnir á villigötum, unnið í samstarfi sérfræðinga á sviði myndlistar, þjóðfræði og náttúru- og umhverfisfræði. Markmið verkefnisins er að auka þekkingu á fjölþættum tengslum dýra, manna og umhverfis á tímum loftslagshlýnunar. Áhersla verður lögð á að rannsaka birtingarform hvítabjarna á Íslandi í sögulegu og samtímalegu samhengi. 

Verkefnið er stutt af Rannsóknasjóði Rannís og hýst við Listaháskóla Íslands, þar sem Bryndís gegnir starfi prófessors og fagstjóra meistaranáms myndlistardeildar. Sýningin er unnin í samvinnu við Anchorage safnið í Alaska.

Sýningarstjóri: Æsa Sigurjónsdóttir, dósent í listfræði við Háskóla Íslands. 

Frekari upplýsingar um Ísbirni á villigötum má sjá HÉR.