Sumarsýningin verður opnuð á laugardaginn kl. 15

Sumarsýningin verður opnuð á laugardaginn kl. 15
Magnús Helgason, Guð fær greitt í dollurum.

Laugardaginn 10. júní kl. 15 verður sýningin Sumar opnuð í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi. Þar sýna norðlenskir myndlistarmenn, 21 talsins, verk sín sem ætlað er að gefa innsýn í líflega flóru myndlistar á Akureyri og Norðurlandi. Sýningin er tvíæringur og afar fjölbreytt, bæði hvað varðar aðferðir og miðla. Til sýnis verða m.a. málverk, videóverk, skúlptúrar, ljósmyndir og teikningar. Sýningin var síðast haldin í Listasafninu á Akureyri haustið 2015. Að þessu sinni er bæði árstíminn og sýningarrýmið annað, þ.e. sumar en ekki haust og Ketilhúsið mun hýsa sýninguna sökum framkvæmda í aðalsýningarými Listasafnsins.

Í janúar síðastliðnum auglýsti Listasafnið á Akureyri eftir umsóknum um þátttöku í áðurnefndri sýningu og var forsenda umsóknar að myndlistarmenn búi eða starfi á Norðurlandi eða hafi tengingu við svæðið. Alls bárust yfir 100 verk og sérstaklega skipuð dómnefnd valdi verk eftir 21 listamann, en hana skipuðu Almar Alfreðsson, vöruhönnuður, Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins á Akureyri, Joris Rademaker, myndlistarmaður, Margrét Elísabet Ólafsdóttir, listfræðingur, og Ólöf Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur.

Listamennirnir sem taka þátt í sýningunni eru: Aðalsteinn Þórsson, Arnar Ómarsson,  Auður Lóa Guðnadóttir, Auður Ómarsdóttir, Árni Jónsson, Bergþór Morthens, Björg Eiríksdóttir, Brynhildur Kristinsdóttir, Erwin van der Werve, Helga Björg Jónasardóttir, Hertha Richardt Úlfarsdóttir, Hildur Ása Henrýsdóttir, Jonna (Jónborg Sigurðardóttir), Jónína Björg Helgadóttir, Karl Guðmundsson, Magnús Helgason, Rebekka Kühnis, Sara Björg Bjarnadóttir, Sigríður Huld Ingvarsdóttir, Snorri Ásmundsson og Svava Þórdís Baldvinsdóttir Júlíusson.

Sumar stendur til 27. ágúst og verður opin alla daga kl. 10-17. Leiðsögn um sýninguna verður alla fimmtudaga í sumar, á íslensku kl. 15 og á ensku kl. 15.30.