Þriðjudagsfyrirlestur: Guðmundur Ármann Sigurjónsson

Þriðjudaginn 29. september kl. 17-17.40 heldur Guðmundur Ármann Sigurjónsson, myndlistarmaður og formaður Gilfélagsins, fyrsta Þriðjudagsfyrirlestur vetrarins í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni List yfir landamæri: Að miðla reynslu og þekkingu listamanna. 

Í fyrirlestrinum mun Guðmundur Ármann fjalla um samsýningu 9 listamanna í Hällefors í Svíþjóð. Hann mun segja frá verkefninu Islandsfärger, Litir Íslands og hugleiða hvaða gildi það hefur fyrir listamenn að vinna yfir landamæri.

Guðmundur Ármann hefur starfað sem myndlistarmaður síðan hann lauk háskólanámi frá listaháskólanum Valand í Gautaborg í Svíþjóð árið 1972. Hann hefur haldið yfir 25 einkasýningar og tekið þátt í fjölda alþjóðlegra samsýninga. Hann hóf kennsluferil sinn sem aðstoðarkennari í grafíkdeild Valand listaháskólans en lauk honum vorið 2014 eftir að hafa kennt við listnámsbraut Verkmenntaskólans á Akureyri í 14 ár. Árið 2012 lauk hann meistaranámi við Háskólann á Akureyri í kennslugreinum myndlistar og fjallaði lokaritgerðin um sjónmenningu og listnámskennslu við framhaldsskóla í Svíþjóð og á Íslandi.

Enginn aðgangseyrir er á fyrirlesturinn. Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Gilfélagsins og Myndlistarfélagsins á Akureyri. Á meðal annarra fyrirlesara vetrarins eru Sunna Svavarsdóttir, myndlistarmaður, Vala Fannell, leikstjóri, Þóra Sigurðardóttir, sýningarstjóri, Lilý Erla Adamsdóttir, myndlistarmaður, og Aðalsteinn Þórsson, myndlistarmaður.