Þriðjudagsfyrirlestur: Kristinn Schram

Þriðjudagsfyrirlestur: Kristinn Schram
Kristinn Schram.

Þriðjudaginn 2. nóvember kl. 17-17.40 heldur Kristinn Schram, dósent í þjóðfræði við Háskóla Íslands, Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Vísitasíur og vegalaust bjarnfólk. Þar mun hann fjalla um birtingarmyndir hvítabjarna í efnismenningu og frásögnum á Íslandi. Verða þær skoðaðar í menningarlegu og sögulegu samhengi og rætt um með hvaða hætti hlutverk þeirra hefur fléttast saman við mennskar sjálfsmyndir fyrr og nú. Gefin verður innsýn í rannsóknir verkefnisins Ísbirnir á villigötum sem er unnið í samstarfi Listaháskóla Íslands og Háskóla Íslands og leitt af Bryndísi Snæbjörnsdóttur og Mark Wilson. Í samtali við sýningu þeirra á Listasafninu á Akureyri verður kastljósinu beint að alþýðufrásögnum og þeim frásagnaraðferðum sem sagnamenn nota við lýsingar á eiginleikum bjarndýra. Spurt verður hvernig sú merking sem gefin er hvítabjörnum hefur tekið breytingum og þróast frá fornu fari. Þar má nefna ýmsar hugmyndir tengdar loftslagsbreytingum, aukinni umhverfisvitund, staðarvitund, kyngervi og stöðu Íslands innan norðurslóða. 

Kristinn Schram er dósent í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Hann er doktor í þjóðfræði frá Edinborgarháskóla og hefur starfað sem forstöðumaður Rannsóknaseturs um norðurslóðir og Þjóðfræðistofu. Hann er meðrannsakandi í þriggja ára rannsóknarverkefninu Ísbirnir á villigötum sem unnið er í samstarfi íslenskra og alþjóðlegra háskóla og listasafna. 

Fyrirlestraröðin er samstarfsverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri og Gilfélagsins. Aðrir fyrirlesarar eru: Alma Dís Kristinsdóttir, safnstjóri Listasafns Einars Jónssonar og Sigbjørn Bratlie, myndlistarmaður.