Þriðjudagsfyrirlestur: Þóra Sigurðardóttir

Þriðjudagsfyrirlestur: Þóra Sigurðardóttir
Þóra Sigurðardóttir.

Þriðjudaginn 9. febrúar kl. 17-17.40 heldur Þóra Sigurðardóttir, myndlistarmaður, Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri. Í fyrirlestrinum mun Þóra fjalla um yfirlitssýningu á verkum Kristínar Katrínar Þórðardóttur Thoroddsen (1885-1959), KTh – málverk og ljósmyndir, sem var opnuð í sal 09 í Listasafninu í desember síðastliðnum og stendur til 23. maí næstkomandi.

Kristín Katrín Þórðardóttir Thoroddsen færði Akureyrarkirkju tvö málverk að gjöf árið 1942 sem síðan þá eiga sinn sess í skipi kirkjunnar. Bera verkin skýrt vitni um faglega skólun í myndlist. Hún átti um margt sérstæðan feril og var vel heima í framsæknum hugmyndum síns samtíma. Verk Kristínar hafa ekki áður verið sýnd opinberlega, fyrir utan málverkin tvö í kirkjunni. Á sýningunni má sjá valin málverk ásamt ljósmyndum frá ferð hennar til Austurlanda.

Þóra Sigurðardóttir lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands, stundaði framhaldsnám í Danmörku og lauk meistaranámi í menningarmiðlun frá H.Í. Þóra hefur sýnt verk sín á samsýningum og einkasýningum á Íslandi, í Bandaríkjunum og í Evrópu. Meðfram myndlistinni hefur hún sinnt listkennslu, stjórnun myndlistaverkefna og sýninga og var skólastjóri Myndlistaskólans í Reykjavík á árunum 1998-2005.

Enginn aðgangseyrir er á fyrirlesturinn. Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Gilfélagsins og Myndlistarfélagsins á Akureyri. Aðrir fyrirlesarar vetrarins eru Aðalsteinn Þórsson, myndlistarmaður, Magni Ásgeirsson, tónlistarmaður, Seung hee Lee, myndlistarmaður, og Vilhjálmur B. Bragason og Sesselía Ólafsdóttir, Vandræðaskáld.