Þrjár smiðjur framundan

Þrjár smiðjur verða haldnar á næstu dögum í Listasafninu í samstarfi við Barnamenningarhátíð á Akureyri. Enginn aðgangseyrir er inn á smiðjurnar. Norðurorka styrkir barna- og fræðslustarf Listasafnsins á Akureyri.

Fimmtudagur 22. apríl, sumardagurinn fyrsti, kl. 12-16: Ýmislegt alls konar - opin listsmiðja

Opin listsmiðju fyrir alla fjölskylduna. Alls konar efniviður verður á staðnum og allir velkomnir. Tilvalið tækifæri fyrir fjölskyldur að skapa sitt eigið listaverk og njóta samverunnar. Enginn aðgangseyrir er inn í tilefni sumardagsins fyrsta.

Laugardagur 24. apríl kl. 11-12: Dönsum í takt við myndlistana

Danslistasmiðja fyrir 3.-5. bekk undir þemanu Dönsum í takt við myndlistina. Leiðbeinandi er Anna Richardsdóttir. Fjöldi takmarkast við 16. Skráning í netfangið heida@listak.is.

Smiðjan miðast við að tengja líkamshreyfingar og dans við gróđur jarđar, þema sýningarinnar Sköpun bernskunnar.

Anna Richardsdóttir (f. 1959) er menntuð í íþróttum og dansi frá íþróttaakademíunni í Köln í Þýskalandi. Hún hefur starfað við kennslu á Akureyri á öllum skólastigum í 30 ár. Hún er einnig þekktur gjörningalistamaður og hefur framið gjörninga um allt land og víða um heim. Anna hefur einstakt lag á líkamstjáningu og hreyfingum og notar húmor og gleði í kennslunni. Segja má að danstímar Önnu séu óvissuferð í heim ævintýra og sköpunar.

Sunnudagur 25. apríl kl. 11-12: Hausar – listsmiðja

Í smiðjunni notar leiðbeinandinn, Kjartan Sigtryggsson, málverkið og teikningar sem aðalmiðil og leiðbeinir þátttakendum í fígúratívri list. Þátttakendur prófa mismunandi verkfæri við teikningu á höfði mannsins og andlitum. Fjöldi takmarkast við 16. Engin skráning.

Kjartan Sigtryggsson (f. 1979) útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands 2006, en stundaði nám við fornámsdeild Myndlistarskólans á Akureyri 1998-1999. Undanfarin ár hefur hann unnið með ungu fólki í ungmennahúsinu Rósenborg í menningarstarfi, en er núna í mastersnámi í faggreinakennslu við Háskóla Íslands.

Uppbyggingarsjóður SSNE styrkir verkefnið.