Verk Margeirs Dire endurgert

Laugardaginn 28. ágúst kl. 14 mun graffitílistamaðurinn Örn Tönsberg hefjast handa við endurgerð á verki sem myndlistarmaðurinn Margeir Dire gerði á Akureyrarvöku 2014. Verkið er staðsett í portinu milli Rub23 og Eymundson og mun Örn njóta aðstoðar Finns Fjölnissonar málarmeistara. Síðar sama dag eða kl. 21 verður myndbandi frá upprunalegu gerð verksins frá 2014 varpað á vegginn í portinu. Verkefnið er hluti af afmælisdagskrá Akureyrarbæjar og styrkt af Akureyrarstofu, KEA og Slippfélaginu. 

Margeir Dire Sigurðarson fæddist á Akureyri 1985 og stundaði nám á listnámsbraut Verkmenntaskólans á Akureyri og við Myndlistarskólann á Akureyri þar sem hann útskrifaðist 2008. Hann nam einnig við Lahti institude of Fine arts í Finnlandi og Art direction í IED Barcelona á Spáni. Margeir var þekktur fyrir myndsköpun í mismunandi miðla svo sem vegglistaverk, málverk, teikningar, vídeó, tónlist, hönnun og listræna stjórnun. Hann hélt fjölda einkasýninga og tók þátt í samsýningum og samstarfsverkefnum. Hann vann meðal annars með myndlistarmanninum Georg Óskari undir nafninu GÓMS. Margeir lést í Berlín 2019.