Vídeóverk framan á Listasafninu

Vídeóverk framan á Listasafninu
Staðreynd 6 – Samlag
Í tilefni af afmæli Akureyrarbæjar 2021 verður völdum vídeóverkum varpað framan á Listasafnið á Akureyri kl. 21-00.30 föstudags- laugardags og sunnudagskvöld. Sýningarnar á vídeóverkunum er hluti af viðburðinum Ljósin í bænum, en þar eru valdar byggingar lýstar á litríkan, listrænan og skemmtilegan hátt. Auk Listasafnsins eru Akureyrarkirkja, Glerárkirkja, Hof og aðstöðuhús siglingaklúbbsins Nökkva upplýst auk þess sem ljósadýrð verður í Lystigarðinum og víðar um bæinn.

Föstudagskvöld

Arna Valsdóttir
Staðreynd 6 – Samlag
2014

„Ég var sumarstarfsmaður í ostagerð Mjólkursamlags KEA, sem nú hýsir Listasafnið á Akureyri. Í hvert sinn sem ég geng um Listasafnið finnst mér ég finna örlitla mysulykt í loftinu og þekki hljóðið í flísunum. Ég myndaði ferðalag mitt frá einum stað til annars og dró gamla tímann á eftir mér inn í þann nýja.“

Sigga Björg Sigurðardóttir
Portret, sígaretta, plötuspilari og Frísör
2018

Í aðalhlutverkum eru hreyfanlegir skúlptúrar sem gerðir eru að mestu leiti úr klósetpappír, vír og notuðum pelsum. Skúlptúrarnir fá allir hvítt leiksvið í byrjun en atburðarrásin er svo dregin áfram með svörtu bleki. Það má því segja að skúlptúrarnir teikni sig áfram í ólíkar aðstæðu. Í síðustu myndinni fáum við síðan að kynnast Frísör sem á í samskiptum við hárkollu. Myndirnar eru teknar upp ramma fyrir ramma, stop motion, og atburðarrásin varð til jafn óðum og myndirnar voru tekin upp.

Laugardagskvöld

Björg Eiríksdóttir
Fjölröddun
2019

Lög skynjana vefjast hver um aðra og mynda mynstur í líkamanum.

Ange Leccia
La Mer / The Sea / Hafið
1991/2018

La Mer / The Sea / Hafið er þekktasta verk franska myndlistarmannsins Ange Leccia, en hann umbreytir því sífellt og aðlagar sýningaraðstæðum hverju sinni. Verkið vísar í austræna heimspeki þar sem tilvist mannsins er líkt við logandi bál sem fuðrar upp á örskotsstundu.

Sunnudagskvöld

Árni Jónsson
Það sem ég vildi að yrði, og það sem varð
2015

Það sem ég vildi að yrði, og það sem varð er innblásið af nokkurra mánaða dvöl Árna á Borgarfirði eystra 2015. Verkið tekst á við liðinn tíma, drauma og veruleika, er er ekki línuleg frásögn heldur sviðsetning á tilfinningum og þrám listamannsin frá því tímabili.

Egill Jónasson
Dótakall
2021

Það er drasl. Það er dót. Það er leikfang. Tíminn verður að engu og allar búðir loka. Ungabarn, grátt fyrir járnum, riðar til falls. Lífsþegar og skúrkar haldast í hendur á meðan aldan sópar því litla sem eftir var á brott.