Leiðsögn á fimmtudaginn kl. 12.15

Leiðsögn á fimmtudaginn kl. 12.15
Frá sýningunni ...úr rústum og rusli tímans.

Fimmtudaginn 21. janúar kl. 12.15-12.45 verður boðið upp á leiðsögn í Listasafninu á Akureyri um sýningar Jóns Laxdal Halldórssonar, ...úr rústum og rusli tímans, og Samúels Jóhannssonar, Samúel. Hlynur Hallsson safnstjóri og Samúel taka á móti gestum og fræða þá um sýninguna. Aðgangur er ókeypis.

Jón Laxdal Halldórsson (f. 1950) nam heimspeki við Háskóla Íslands og gaf út sína fyrstu ljóðabók árið 1974. Jón var einn þeirra sem stóðu að blómlegri starfsemi Rauða hússins á Akureyri og setti þar upp sína fyrstu einkasýningu árið 1982. Klippimyndir hafa verið hans helsta viðfangsefni allar götur síðan. Verkum Jóns má lýsa sem ljóðrænni naumhyggju en þau spanna í raun mun víðara svið. Verk hans hafa verið sýnd á fjölmörgum sýningum víðs vegar um heim og þau er að finna á fjölda safna.

Á sýningunni …úr rústum og rusli tímans má sjá verk frá löngum ferli Jóns Laxdal Halldórssonar sem myndlistarmanns ásamt nokkrum nýjum verkum sem gerð voru sérstaklega fyrir sýninguna.

Samúel Jóhannsson er fæddur á Akureyri 1946. Hann vakti fyrst athygli 14 ára gamall fyrir sérkennilegar andlitsmyndir á skólasýningu Gagnfræðaskóla Akureyrar. Hann hefur verið virkur í myndlist samfellt frá árinu 1980 og vinnur með akrílmálningu, vatnsliti, blek, lakk og járn.

Líkt og á fyrri sýningum Samúels er viðgangsefnið mannslíkaminn og andlitið. Að þessu sinni einbeitir hann sér fremur að túlkun andlitsins en formum hinna ýmsu líkamshluta. Myndmálið er sterkt, bæði hvað varðar liti og form og svipbrigði andlitsins er hrjúft. Stundum virðist Samúel vinna með „óbærilegan léttleika tilverunnar“ – hughrif sem skapa léttúð og þunga í senn, en eru ekki svo fjarri manneskjunni þegar á allt er litið.


Myndlistasýningar Samúels eru orðnar fjölmargar. Hann hefur haldið rúmlega 30 einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga hér heima og erlendis, síðast í sýningu Listasafnsins Sköpun bernskunnar vorið 2015.