Þorvaldur Þorsteinsson
Yfirlitssýning
Lengi skal manninn reyna
Salir 01-05
29.08.20-11.04.21
Yfirlitssýning á verkum eftir Þorvald Þorsteinsson (1960-2013) verður opnuð á Akureyrarvöku, 29. ágúst 2020. Sýningin er samstarfsverkefni Listasafnsins á Akureyri og Hafnarborgar í Hafnarfirði, en þar verður hún sett upp snemma árs 2021.
Þorvaldur var afkastamikill listamaður og kennari sem nýtti sér flesta miðla í listsköpun. Auk þess að fást við myndlist samdi hann skáldsögur, leikrit, ljóð og tónlist og varð landsþekktur fyrir Vasaleikhúsið sem flutt var í Ríkisútvarpinu 1991 og síðar sýnt í sjónvarpi. Skáldsaga hans, Skilaboðaskjóðan, sló einnig rækilega í gegn þegar hún kom út 1986 og var síðar færð í leikbúning og sýnd í Þjóðleikhúsinu sem söngleikur 1993. Fjórar bækur Þorvaldar um Blíðfinn hafa verið þýddar á fjölda tungumála og Borgarleikhúsið setti upp leikrit hans And Björk of Course 2002. Hann hélt margar einkasýningar, jafnt á Íslandi sem erlendis, og tók þátt í alþjóðlegum samsýningum víða um heim.
Þorvaldur hefði orðið sextugur þann 7. nóvember 2020. Af því tilefni efnir Listasafnið til málþings 13. febrúar, þar sem fjallað verður um ævi hans og áhrif.