Ástir Davíðs

ALLAR GÁTTIR OPNAR: Ég nefni nafnið þitt
- enn um ástir Davíðs
Fimmtudagurinn 3. ágúst, kl: 16
Davíðshús

Davíð Stefánsson var tilfinningaríkur listamaður og ástarævintýrin hans voru mörg. Þar ríktu heitar og viðkvæmar tilfinningar og flóknir þræðir voru spunnir. Við höfum nokkrum sinnum áður fjallað um ástir Davíðs í ljóðum hans og lífi, en sá brunnur er djúpur og bæði er af nógu að taka í þessu sígilda umfjöllunarefni og sífellt kemur fleira í ljós, sem bregður ljósi á manninn og skáldverk hans. Það þurfti ekki mikið til að hneyksla almenning á tímum Davíðs, og þótt hann hafi oft farið leynt með ástarævintýri sín, þá braut hann flestar reglur samtímans í þeim efnum.
 
Það er best (2. erindi ljóðsins sem birtist í bókinni Að norðan 1936)
 
Ég hafði aldrei skap til vefja vígða hlekki
um veika litla fætur, þá mýkstu sem ég þekki,
og því síður um vængi, sem vor og frelsi þrá.
Að ungur sveinn og djarfur hjá ástmey sinni rekki
er ekki nema sjálfsagt, ef þannig stendur á.
Það finnst mér jafn-eðlilegt og þyrstur maður drekki.
En þetta vilja margir hvorki heyra eða sjá.
 
Í fyrra kom út bókin Elsku Lulla mín, eftir Helga Ingólfsson, sem er í raun ekki mikið annað en 64 ástarbréf, skrifuð á árunum 1937 til 41. Þau eru reyndar sögð frá svonefndum Andrési frá Björtubrekku, en öllum má ljóst vera að bréfin eru frá Davíð til Lullu, Þuríðar Stefánsdóttur, sem var ástkona hans um hríð. Þar er líka að finna drög að bréfum frá henni til hans. Bókin bregður að sjálfsögðu ljósi á ástmanninn Davíð og gefur okkur fágætt innlit í líf hans á þessum árum.
 
Í dagskránni á fimmtudaginn munum við glugga í þessi bréf, bera þau saman við önnur bréf og aðrar sögur sem við höfum í fórum okkar um konurnar í lífi hans og leyfa okkur að tengja þessar upplýsingar við ljóðin og önnur verk skáldsins.
 
Umsjón með dagskránni hefur Valgerður H. Bjarnadóttir, húsfreyja í Davíðshúsi
 
Davíðshús er opið frá kl. 13 til 17 alla virka daga. Dagskráin hefst kl. 16 og er u.þ.b. klukkustund.
Rými er takmarkað og því gott að tryggja sér sæti tímanlega.
 
Aðgangseyrir kr. 1.400.- / 700.- (lífeyrisþegar) - frítt fyrir börn
Sólarhringskort kr. 2000.-
Árskort kr.3000.-
 
Dagskráin er styrkt af Uppbyggingarsjóði Eyþings og er með í Listasumri #listasumar
 
Sjá nánar á www.facebook.com/skaldahusin/ og www.minjasafnid.is
 
Sjá nánar HÉR