Fyrstu Sumartónleikarnir

Sumartónleikar í Akureyrarkirkju
Sunnudagurinn 2. júlí, kl: 17
Akureyrarkirkja
Aðgangur ókeypis

Sumartónleikar í Akureyrarkirkju fara fram alla sunnudaga í júlímánuði og er aðgangur ókeypis. Tónleikaröðin fagnar í ár 30 ára starfsafmæli og er næst elsta tónleikaröð landsins. 

Á fyrstu tónleikum sumarsins koma fram Svafa Þórhallsdóttir sópran, Ella Vala Ármannsdóttir horn og Sigrún Magna Þórsteinsdóttir orgel og flytja þær íslensk sönglög í bland við hátíðlega tóna fyrir horn og orgel.

Styrktaraðilar tónleikaraðarinnar eru Sóknarnefnd Akureyrarkirkju, Héraðssjóður Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmis, Menningarsjóður Akureyrar, Tónlistarsjóður og veitingastaðurinn Goya. Tónleikarnir eru hluti af Listasumri á Akureyri. 

Um flytjendur
Ella Vala Ármannsdóttir, hornleikari, er fædd í Svarfaðardal. Hún stundaði hornnám við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þaðan blásarakennara- og einleikaraprófi. Síðar hélt Ella Vala áfram námi við Musikhochschule Freiburg im Breisgau, Þýskalandi. Í kjölfarið lauk hún framhaldsnámi í Schola Cantorum Basiliensis í Basel, Sviss við náttúruhornleik. Ella Vala er stofnmeðlimur kammersveitarinnar Ísafoldar, er lausráðin hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands og leikur reglulega m.a. með Hljómsveit íslensku Óperunnar og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands.
Á náttúruhornið hefur hún leikið og tekið upp fjölda geisla/mynddiska vítt og breytt um Evrópu.
Ella Vala er síðan 2013 fastráðin sem málmblásturskennari við Tónlistarskólann á Akureyri og Tónlistarskólann á Tröllaskaga.

Sigrún Magna Þórsteinsdóttir stundaði tónlistarnám í Tónlistarskólanum á Akureyri, Tónlistarskólanum í Reykjavík, við Tónskóla þjóðkirkjunnar og í Konunglega danska tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn. Þaðan lauk hún meistaraprófi í kirkjutónlist undir handleiðslu prof. Bine Bryndorf. Í námi sínu lagði hún sérstaka áherslu á barnakórstjórn, tónlistaruppeldi barna og kenningar um tónlistarþroska barna. Hún heldur reglulega tónlistarnámskeið fyrir foreldra ungbarna.
Sigrún hefur starfað sem organisti og kórstjóri í Reykjavík, í Kaupmannahöfn og á Akureyri. Sigrún starfar nú sem organisti við Akureyrarkirkju og við Möðruvallaklausturskirkju í Hörgárdal. Hún stjórnar einnig Kvennakór Akureyrar og Kammerkórnum Ísold ásamt því að kenna við Tónlistarskólann á Akureyri. Hún hefur haldið fjölda tónleika á Íslandi og erlendis bæði sem einleikari, meðleikari og kórstjóri. Sigrún hefur sótt fjölda námskeiða m.a. hjá Olivier Latry, Hans-Ola Ericsson, Michael Radulescu og Mattias Wager. 
Sigrún fékk úthlutað listamannalaunum frá íslenska ríkinu árið 2016.

Svafa Þórhallsdóttir er fædd i Reykjavik. Hún hóf söngnám við Söngskólann í Reykjavik og lagði síðar stund á söng- og söngkennaranám við Konunglega Tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn.
Svafa starfar sem söngvari, tónlistarkennari og kórstjóri í Kaupmannahöfn. Hún tekur virkan þátt í óratóríu uppfærslum sem einsöngvari sem og kórsöngvari og heldur reglulega einsöngstónleika með árherslu á ljóðasöng. Svafa hefur komið fram sem einsöngvari á Tónlistarhátíðum í Færeyjum, Þýskalandi, Póllandi, Noregi, Danmörku og Íslandi.

Við erum hluti af Listasumri!
#listasumar

Sjá nánar HÉR