Guðrún Stefánsdóttir frá Fagraskógi

ALLAR GÁTTIR OPNAR: „Mundu mig og mundu“
– Guðrún frá Fagraskógi
Fimmtudagurinn 10. ágúst, kl: 16
Davíðshús
 
Davíð Stefánsson var elstur fjögurra bræðra, en hann átti líka þrjár eldri systur. Yngst þessara systra var Guðrún, fædd 1893, tveimur árum eldri en Davíð. Guðrún og Davíð áttu eitt og annað sameiginlegt, m.a. skáldagáfuna. Það kemur ekki á óvart að hún hafði ekki sömu tækifæri og bróðir hennar til að rækta þá gáfu, konum voru ekki búnar sömu aðstæður og karlar, þótt kvenfrelsisbaráttan hafi verið fjölskyldu þeirra kær.
 
Fyrir tveimur árum kom út lítið kver sem heitir einfaldlega Ljóð – Guðrún Stefánsdóttir frá Fagraskógi. Þar rekur dótturdóttir Guðrúnar, Ragnheiður Guðbjargar Hrafnkelsdóttir, sögu ömmu sinnar í stuttu máli og þar má einnig lesa ljóð Guðrúnar, sem flest höfðu birst áður í tímaritum, en þó ekki öll.
 
Fyrsta kvæðið í bókinni er frá 1927 og heitir Mundu. Eitt erindið er svona:
 
"Mundu mig og mundu,
mér er birtan ung,
inn í bergið aftur
eru sporin þung."
 
Guðrún var ein af þessum hetjum, konum sem ruddu brautina af eldmóði og hugsjón. Hún gaf út og sá um alla vinnu við Nýtt kvennablað frá 1944 til 1967, lengst af ein. Hún átti þrjár dætur, missti einn son og manninn sinn missti hún þegar dæturnar voru allar kornungar. Hún barðist áfram, ein, af ótrúlegri þrautseigju og hagsýni. Það er mikilvægt að við munum þessar konur, sem í dagsins önn, inn á milli óteljandi verka, náðu að næra sál sína og annarra, setja saman fögur og sterk kvæði, og jafnvel birta þau. Við þurfum að seiða þær út úr berginu, þar sem minning þeirra margra hvílir allt of lengi.
 
Í þessari dagskrá fjallar Valgerður um Guðrúnu, les ljóð hennar og bróður hennar, þjóðskáldsins.
 
Davíðshús er opið frá kl. 13 til 17 alla virka daga. Dagskráin hefst kl. 16 og er u.þ.b. klukkustund.
Rými er takmarkað og því gott að tryggja sér sæti tímanlega.
 
Aðgangseyrir kr. 1.400.- / 700.- (lífeyrisþegar) - frítt fyrir börn
Sólarhringskort kr. 2000.-
Árskort kr.3000.-
 
Viðburðaröðin ALLAR GÁTTIR OPNAR er styrkt af Uppbyggingarsjóði Eyþings og er með í Listasumri #listasumar
Sjá nánar á www.facebook.com/skaldahusin/ og www.minjasafnid.is
 
Verið velkomin!
 
Sjá nánar HÉR