Jenný Lára Arnórsdóttir er nýr verkefnastjóri Jónsmessuhátíðar, Listasumars og Akureyrarvöku.

Jenný Lára Arnórsdóttir er nýr verkefnastjóri Jónsmessuhátíðar, Listasumars og Akureyrarvöku.
Jenný Lára Arnórsdóttir

Jenný Lára Arnórsdóttir leikstjóri, leikari og framleiðandi mun verkstýra Jónsmessuhátíð, Listasumri og Akureyrarvöku í samvinnu við Akureyrarstofu og Listasafnið á Akureyri. Jenný Lára var valin úr hópi 11 umsækjenda um stöðuna en hún útskrifaðist sem leikari og leikstjóri frá The Kogan Academy of Dramatic Arts í London árið 2012. Hún hefur starfað sem leikstjóri bæði hjá sjálfstæðum atvinnuleikhópum sem og áhugaleikhópum. Jenný Lára er meðlimur í leikhópnum Umskiptingar, sem er atvinnuleikhópur sem starfar á Norðurlandi en hún sá um framleiðsluna á fyrsta verki þeirra Framhjá rauða húsinu og niður stigann. Einnig leikstýrði hún og framleiddi gamanóperuna Piparjúnkan og þjófurinn sem sýnd var í Samkomuhúsinu á Akureyrarvöku 2017.

Dagskrá sumarsins hefst kl.12 þann 23. júní á Jónsmessuhátíð sem er sólarhringshátíð þar sem fjöldi fólks og fyrirtækja taka þátt í töfrandi og spennandi dagskrá. Daginn eftir hefst svo Listasumar sem stendur yfir í allt sumar og einkennist af listsýningum, tónleikum, gjörningum og listasmiðjum. Sumarævintýrinu lýkur svo á afmælishátíð Akureyrarbæjar, Akureyrarvöku 24. - 25. Ágúst

Líkt og á síðasta ári þá er stefnt á fjölbreytta og áhugaverða viðburði fyrir alla aldurshópa og spennandi listasmiðjur fyrir börn og unglinga. Við hvetjum alla góða hugmyndasmiði til að senda okkur hugmyndir og vangaveltur á viðeigandi netföng, jonsmessa@akureyri.is, listasumar@akureyri.is og akureyrarvaka@akureyri.is

#jonsmessuhatid #listasumar #akureyrarvaka #akureyri #northiceland #iceland #visitakureyri #komdunordur #hallóakureyri