Flýtilyklar
Spennan magnast
Nú styttist í fyrsta af þremur viðburðum sem unnir eru í samvinnu Akureyrarstofu og Listasafnsins á Akureyri en um er að ræða Jónsmessuhátíð sem er sólarhringslöng hátíð frá hádegi til hádegis 23.-24. júní, Listasumar sem stendur frá 24. júní - 26. ágúst og Akureyrarvöku, afmælishátíð Akureyrar sem fram fer 25.-26. ágúst og slær botninn í þessa þrennu. Þetta aukna samstarf felst ekki einungis í samstarfi Akureyrarstofu og Listasafnsins heldur var ákveðið að tengja viðburðina þrjá saman útlitslega og var það gert með því að láta hanna ný merki sem öll ættu eitthvað sameiginlegt. Leitað var til þeirra Heiðdísar Höllu Bjarnadóttur og Kristínar Önnu Kristjánsdóttur sem báðar eru nýútskrifaðir grafískir hönnuðir frá Myndlistaskólanum á Akureyri.
"Við lögðu upp með að öll merkin myndu tengjast sjónrænt. Þau eru öll hringlaga og í sama stíl þar sem viðburðirnir þrír falla allir undir sömu stofnanir. Þ.e. Akureyrarstofu og Listasafnið á Akureyri. Þau eru litrík og stemningin í þeim á að fanga gleði, hugrekki, fjölskyldu og ævintýri."
Jónsmessuhátíð:
Merkið á að fanga sumarstemningu, gleði og miðnæturrómantíkina á jónsmessu. Litirnir í merkinu eru sóttir í íslenska sumarið og kvöldhimininn í júnimánuði. Dropinn er tákn fyrir döggina sem þjóðsögur segja að ef fólk velti sér uppúr á Jónsmessunótt fái það óskir sínar uppfylltar. Í dropanum speglast svo miðnætursólin og hafflöturinn.
Listasumar:
Við hönnun merkis Listasumars var unnið útfrá gamla merkinu sem var sól og fimm sólargeislar. Litirnir eru fjörugir, hressandi og áberandi eins og dagskrá Listasumars er gjarnan.
Akureyrarvaka:
Akureyrarvaka er afmælishátíð þar sem íbúar og gestir sameinast, taka þátt og njóta. Í merki Akureyrarvöku er auga þar sem sólin skín. Vakandi borgarar koma saman í gleði og njóta þess að fylgjast með og taka þátt í dagskránni.
Leit

