Allt til enda 2025

Allt til enda
Listvinnustofur barna í Listasafninu á Akureyri  

Verkefnið felst í því að bjóða börnum á grunnskólaaldri að sækja þrjár ólíkar listvinnustofur í Listasafninu á Akureyri og vinna þar verk undir leiðsögn kraftmikilla og spennandi listamanna og hönnuða. Lögð er áhersla á að börnin taki virkan þátt í öllu ferlinu, frá því að leita sér innblásturs, skapa verkið í samstarfi við leiðbeinanda og sýna svo afraksturinn á sérstakri sýningu sem sett verður upp í lok listvinnustofunnar. Þar fá börnin tækifæri til að láta ljós sitt skína á sinni eigin sýningu í Listasafninu, allt frá upphafi til enda. 

Nánari upplýsingar veitir Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, verkefnastjóri fræðslu og miðlunar, á heida@listak.is eða í síma 892-0881. Allt til enda er samstarfsverkefni Listasafnsins á Akureyri, Akureyrarbæjar og Safnasjóðs. Verkefnið er styrkt af Safnasjóði. 

Ekkert þátttökugjald en skráning er nauðsynleg á heida@listak.is.

Skepnugarðurinn
Listvinnustofa með Siggu Björgu

Fyrsta vinnustofa í verkefninu Allt til enda fer fram dagana 13. og 14. september 2025. Þá mun myndlistarkonan Sigga Björg bjóða börnum í 1.- 4. bekk í teiknivinnustofu þar sem búnar verða til nýjar skepnur sem ekki hafa áður sést í heiminum. Þær verða samsettar úr þekktum dýra- eða skordýrategundum og þeim gefin nöfn og sérstakir eiginleikar. Teikningar af nýju skepnunum verða unnar í raunstærð þar sem engar hömlur verða settar á stærð þeirra, svo lengi sem þær rúmast í húsakynnum safnsins. Vinnustofunni lýkur með sýningu í Listasafninu, sem þátttakendur skipuleggja sjálfir. Þar verður áhorfendum boðið að ganga inn í skepnugarð og kynnast þessum nýju skepnum sem enginn hefur áður séð, en heiminn sárvantar. Sýningin stendur til 5. október næstkomandi. 

Sigga Björg Sigurðardóttir útskrifaðist frá myndlistarbraut LHÍ 2001 og lauk meistaragráðu í myndlist frá The Glasgow School of Art 2004. Síðan þá hefur hún starfað sem myndlistarmaður og verkin hennar hafa verið sýnd í söfnum og galleríum víðsvegar um heiminn. Verk Siggu Bjargar er einnig að finna í mörgum söfnum bæði hérlendis og erlendis. 

Aldur: 1.-4. bekkur.
Tímasetning: 13.-14. september kl. 11-13 báða dagana.
Staðsetning: Safnfræðslurými Listasafnsins á Akureyri.
Þátttakendur: 10 börn.
Þátttökugjald: Ekkert, en skráning nauðsynleg.
Skráning: Tekið er á móti skráningum frá 3. september á netfangið heida@listak.is.

Gjörningur!
Listvinnustofa með Erni Alexander Ámundasyni. 

Önnur vinnustofa í verkefninu Allt til enda fer fram dagana 11. og 12. október 2025. Þá mun Örn Alexander Ámundason, myndlistarmaður, bjóða börnum í 7.-10. bekk að skoða sögu gjörningalistar og gera spennandi tilraunir með miðilinn. Þátttakendur munu öðlast góðan skilning á listforminu, fremja gjörning og búa til eigin gjörningadagskrá sem verður hluti af A! Gjörningarhátíð. Að lokinni vinnustofu verður sett upp sýning á ferli og afrakstri verkefnisins. Sýningin stendur til 2. nóvember. 

Örn kláraði MFA gráðu í Myndlist frá Listaháskólanum í Malmö og BFA gráðu frá sama skóla. Hann hlaut hin virtu Edstandska Stiftelsen verðlaunin í Svíþjóð 2013. Verk hans hafa verið sýnd víða, bæði á Íslandi og erlendis. Örn er einn af stofnendum listamannarekna sýningarrýmisins Open í Reykjavík og rak hið skammlífa Parent í Malmö í Svíþjóð. 

Aldur: 7.-10. bekkur.
Tímasetning: 11.-12. október kl. 11-14 báða dagana.
Staðsetning: Safnfræðslurými Listasafnsins á Akureyri.
Þátttakendur: 10 börn.
Þátttökugjald: Ekkert, en skráning nauðsynleg.
Skráning: Tekið er á móti skráningum frá 1. október á netfangið heida@listak.is.

Lifandi textíll
Listvinnustofa með Ýrúrarí 

Síðasta vinnustofa verkefnisins Allt til enda fer fram dagana 8. og 9. nóvember. Þá mun Ýrúrarí, listakona og hönnuður, bjóða börnum í 3.-6. bekk að skoða ólíkar leiðir til að glæða nýju lífi í textílefni og flíkur sem fólk er hætt að nota. Ýrúrarí vinnur gjarnan með notaðar peysur í textílverkum sínum, peysur sem áður hefðu endað í textílendurvinnslu fá þar nýtt líf og persónuleika. Grunnur vinnustofunnar byggir á handverksaðferðum sem skapa rými fyrir sköpun og tjáningu með textíl. Hvernig er hægt að breyta gömlum og ónýtum textíl í áhugavert og persónulegt listaverk? Vinnustofunni lýkur með sýningu í Listasafninu á Akureyri sem þátttakendur skipuleggja sjálfir. Sýningin stendur til 7. desember. 

Ýr Jóhannsdóttir lærði textílhönnun í Myndlistaskólanum í Reykjavík og Glasgow School of Art og kláraði meistaranám í listkennslu við Listaháskóla Íslands haustið 2021. Ýr vinnur að mestu undir nafni Ýrúrarí þar sem hversdagurinn, endurvinnsla og húmor mætast í persónugerðum peysum. Verk Ýrar finnast í ýmsum safneignum og hafa verið sýnd víða um heim. Einnig hafa skapandi fataviðgerðar-smiðjur hennar vakið mikla lukku. 

Aldur: 3.-6. bekkur.
Tímasetning: 8.- 9. nóvember kl. 11-14 báða dagana.
Staðsetning: Safnfræðslurými Listasafnsins á Akureyri.
Þátttakendur: 10 börn.
Þátttökugjald: Ekkert en skráning nauðsynleg.
Skráning: Tekið er á móti skráningum frá 29. október á netfangið heida@listak.is.