Fjölskylduleiðsögn á sunnudaginn

Sunnudaginn 26. október kl. 11-12 mun Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, verkefnastjóri fræðslu og miðlunar, segja börnum og fullorðnum frá sýningum Barbara Long, Himnastigi, og Bergþórs Morthens, Öguð óreiða. Að lokinni leiðsögn er gestum boðið að búa til sitt eigið listaverk, innblásið af verkum sýninganna.

Aðgangur er ókeypis í boði Norðurorku sem styrkir sérstaklega safnkennslu og fræðslu fyrir börn og fullorðna í Listasafninu.

Barbara Long er fædd í Newark-on-Trent í Englandi 1960, en er nú búsett í Madríd. Í útbreiddri, gagnvirkri og yfirgnæfandi innsetningu sinni, Himnastiga, kannar hún hringrás lífsins, skin og skúrir í eigin lífi, ásamt fortíð, nútíð og framtíð. Innsetningin er eingöngu gerð úr endurnýttum textíl og efni úr lífi listakonunnar og er hvert þrep bólstrað með rauðlituðu taui, með vísun í ár í hennar lífi. Almenningi er boðið að kafa inn í verkið og snerta – með varúð.

Bergþór Morthens (f. 1979) lauk námi við Myndlistaskólann á Akureyri 2004 og meistaranámi í myndlist við Valand háskólann í Gautaborg 2015. Í verkum hans eru mörkin á milli málverks og skúlptúrs óljós, en efnin þau sömu, rétt eins og litirnir og meðferð þeirra. Myndheimurinn er lifandi og verkin flökta á milli myndrænnar túlkunar og hins óhlutlæga. Skilin á milli innra og ytra yfirborðs og þess sem liggur undir verða óljós, í gróteskum og brengluðum formum sem hylja, en afhjúpa á sama tíma.