Leiðsögn á laugardegi

Laugardaginn 25. október kl. 15 verður boðið upp á leiðsögn um þrjár sýningar; Himnastigi - Barbara Long, Öguð óreiða - Bergþór Morthens og Femina Fabula - Sýndarveruleiki. Aðgangur er innifalinn í miðaverði Listasafnsins.

Barbara Long er fædd í Newark-on-Trent í Englandi 1960, en er nú búsett í Madríd. Í útbreiddri, gagnvirkri og yfirgnæfandi innsetningu sinni, Himnastiga, kannar hún hringrás lífsins, skin og skúrir í eigin lífi, ásamt fortíð, nútíð og framtíð. Innsetningin er eingöngu gerð úr endurnýttum textíl og efni úr lífi listakonunnar og er hvert þrep bólstrað með rauðlituðu taui, með vísun í ár í hennar lífi. Almenningi er boðið að kafa inn í verkið og snerta – með varúð.

Bergþór Morthens (f. 1979) lauk námi við Myndlistaskólann á Akureyri 2004 og meistaranámi í myndlist við Valand háskólann í Gautaborg 2015. Í verkum hans eru mörkin á milli málverks og skúlptúrs óljós, en efnin þau sömu, rétt eins og litirnir og meðferð þeirra. Myndheimurinn er lifandi og verkin flökta á milli myndrænnar túlkunar og hins óhlutlæga. Skilin á milli innra og ytra yfirborðs og þess sem liggur undir verða óljós, í gróteskum og brengluðum formum sem hylja, en afhjúpa á sama tíma.

Sýningin Femina Fabula byggir á hugmyndum sviðslistakvennanna Kajsa Bohlin, Lalla la Cour, Anna Stamp, Noora Hannula, Tuba Keleş og Linh Le. Verkin urðu til í samvinnu þeirra við myndlistarkonuna Kirsty Whiten og leikstjórann Kristján Ingimarsson, sem er listrænn stjórnandi verksins. Þessi alþjóðlegi hópur kannar samband sitt við heiminn og möguleika hins skapandi menningar- og náttúrukrafts sem býr í kvenleikanum. Á sýningunni má sjá sex verk með aðstoð sýndarveruleikagleraugna.