Tvær sýningar opnaðar á laugardaginn

Tvær sýningar opnaðar á laugardaginn
Þóra Sigurðardóttir.

Laugardaginn 17. maí kl. 15 verða sýningar Heimis Hlöðverssonar, Samlífi, og Þóru Sigurðardóttur,
Tími – Rými – Efni, opnaðar í Listasafninu á Akureyri. Á opnunardegi verður leiðsögn með Heimi kl. 15.45.

Heimir Hlöðversson er margmiðlunarlistamaður og kvikmyndagerðarmaður. Hann er menntaður í kvikmyndagerð, margmiðlun og tónlist, auk þess að vera með mastersgráðu í menningarstjórnun. Heimir hefur unnið við listsköpun og kvikmyndagerð síðastliðin nítján ár, sett upp listasýningar, gert heimildarmyndir og skapað sjón- og hljóðræna upplifun fyrir söfn á Íslandi og erlendis.

Verkið Samlífi er vídeó- og hljóðinnsetning sem dregur fram andstæður og tengsl fólks og náttúru. Hvert er samband fólks og náttúru? Hvernig hefur fólk áhrif á aðlögunarhæfni náttúrunnar og hvernig hefur náttúran áhrif á mannfólkið? Hvernig bregðast lífverur jarðar við stöðugum breytingum í heimi þar sem fólkið ræður mestu um loftslag og umhverfi? Er þörf á að auka skilning á samtengdum heimi okkar og þeim möguleikum sem felast í að móta náttúru og nýsköpun fólksins?

Innsetningin samanstendur af myndböndum sem umlykja rýmið og skapa samræmda heild sem minnir á abstrakt og lífrænan innri heim lifandi veru.

Þóra Sigurðardóttir fæddist og ólst upp á Akureyri. Hún lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1981 og framhaldsnámi við Det Jyske Kunstakademi í Danmörku 1991. Hún hefur sýnt víða á Íslandi og erlendis og m.a. hélt hún einkasýningu í Listasafni Íslands 2024. Verk Þóru eru í eigu opinberra safna og einkasafna hérlendis og erlendis, s.s. Listasafns Íslands, Nýlistasafnsins, Listasafns Reykjavíkur, BBK Print Collection í Berlín og Metropolitan Museum of Art Paper/Print Collection í New York.

Á sýningunni má sjá ný verk sem eiga rætur í áratugalöngum áhuga Þóru á efni, rými og teikningu. Líkaminn, næmi hans, efni, staða og hreyfing eru mikilvæg viðfangsefni Þóru. Í verkunum beinist athyglin að náttúruumhverfi lífverunnar: kalki, kolum, málmum, lífrænum himnum, trefjum og úrgangi.

Ann-Sofie Gremaud skrifar texta um sýninguna. Verkefnið er styrkt af Myndlistarsjóði, Ferðasjóði Muggs, Myndstefi og Starfslaunasjóði myndlistarmanna.