Leiðsagnir um helgina

Leiðsagnir um helgina
James Merry - Nodens.

Laugardaginn 20. september kl. 15 verður boðið upp á almenna leiðsögn um sýningar James Merry, Nodens, Sulis & Taranis, og Ýmis Grönvold, Milli fjalls og fjöru. Jafnframt verður fjölskylduleiðsögn um sýningarnar í boði daginn eftir, sunnudaginn 21. september kl. 11-12. Aðgangur að almennu leiðsögninni er innifalinn í aðgöngumiða á safnið, en aðgangur að fjölskylduleiðsögninni er ókeypis í boði Norðurorku og að henni lokinni er gestum boðið að búa til sitt eigið listaverk, innblásið af verkum sýninganna.

James Merry er breskur myndlistarmaður sem búið hefur og starfað á Íslandi í áratug. Hann er þekktastur fyrir útsaumaðar grímur og sem tíður samstarfsmaður Bjarkar Guðmundsdóttur í sjónrænni framsetningu hennar. Hann hefur unnið með stofnunum og listamönnum eins og V&A safninu í London, Gucci, Royal School of Needlework, Tim Walker, Tilda Swinton og Iris Van Herpen.

Í Listasafninu á Akureyri eru nú til sýnis þrjár andlitsgrímur Merry, hver þeirra innblásin af ákveðnum rómversk-keltneskum fornleifafundi í Bretlandi. Verkin bjóða upp á samtímatúlkun á skarti valdsmanna frá járnöld – sem gefur innsýn í hversu heillaður Merry er af þessu sögutímabili og því svæði sem hann ólst upp á, í suðvesturhluta Bretlands. Sjá má upprunaleg verk auk mynda og skrásetningar á sköpunarferlinu.

Verk Ýmis Grönvold eru innblásin af náttúrunni s.s. fjöllum, fossum, hafi, dýralífi og plöntum. Oft eru þessi viðfangsefni túlkuð á frjálslegan og persónulegan hátt. Fyrri sýningar hans hafa beinst að umbreytingu og tengslum, með áherslu á vöxt og hreyfingu innan náttúrulegra hringrása. Sýningin Milli fjalls og fjöru byggir á þessum grunni. Hún rannsakar rýmið á milli hins fasta og breytilega, þar sem náttúrulegir ferlar, litir og áferð mætast og til verða fjölbreyttar myndrænar lýsingar á umbreytingu og tengslum.

Ýmir Grönvold býr og starfar í Reykjavík. Hann útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands með BA-gráðu í myndlist 2018 og var í skiptinámi við KABK og Konunglegu listaakademíuna í Den Haag. Ýmir vinnur með málverk, teikningar og fundin efni og hefur í verkum sínum rannsakað fjölbreytt þemu, allt frá Tarot og andlegri leit til landslags og náttúrutúlkunar.