Flýtilyklar
Þriðjudagsfyrirlestur: Elín Berglind Skúladóttir
25.10.2025
Þriðjudaginn 28. október kl. 16.15 heldur Elín Berglind Skúladóttir, sjónlistakennari og listakona, Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu undir yfirskriftinni Að ná tökum á tækni. Þar mun hún fjalla um leirlífið, námskeiðin, myndlistarkennsluna, Þúfu46 og framhaldið. Aðgangur er ókeypis.
Elín Berglind útskrifaðist með B.Ed í grunnskólakennslu frá Háskólanum á Akureyri með kjörsvið í myndmennt frá Háskóla Íslands. Í kjölfarið tók hún M.Ed. í kennslu list- og verkgreina frá HÍ. Hún hefur kennt myndlista- og verkgreinar í grunnskóla síðan 2009 og undanfarin ár lagt sérstaka áherslu á námsefnisgerð og að blanda saman hefðbundnum verkefnum og tækni. Einnig hefur hún unnið að því að bæta einhverju nýju við þessi hefðbundnu verkefni nemenda og gera reynsluna dýpri og áhugaverðari. Í nálgun sinni leggur Elín Berglind áherslu á faglega kennslu, fræðslu í listasögu og samstarf við Listasafnið, listamenn og listasamfélagið. Leirmótun er ávallt hluti af námi barna í kennslu hennar og gera allir þeir árgangar sem hún kennir a.m.k. eitt leirverkefni með áherslu á mismunandi tækni við leirmótun og persónulega sköpun.
Frá 2021 hefur Elín Berglind haldið úti vefsíðunni listkennsla.com þar sem nálgast má verkefni fyrir kennsluna. Hún hefur jafnframt fylgt eftir ferli sínu í leirnum síðan 2023 á samfélagsmiðlum og leggur þar áherslu á tilraunir, uppgötvanir, framfarir og fjölbreyttar aðferðir. Hún heldur jafnframt námskeið í leirmótun í Samlaginu – sköpunarverkstæði og á vinnustofu sinni í Þúfu 46.
Þriðjudagsfyrirlestrarnir eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Myndlistarfélagsins og Gilfélagsins. Síðasta fyrirlestur ársins heldur Ragnheiður Þórsdóttir, textíllistakona, þriðjudaginn 4. nóvember. Þriðjudagsfyrirlestrarnir hefjast á nýjan leik í febrúar á komandi ári.
Leit