Síðasti Þriðjudagsfyrirlestur ársins: Ragnheiður Björk Þórsdóttir

Síðasti Þriðjudagsfyrirlestur ársins: Ragnheiður Björk Þórsdóttir
Ragnheiður Björk Þórsdóttir.

Þriðjudaginn 4. nóvember kl. 16.15 heldur Ragnheiður Björk Þórsdóttir, textíllistamaður, síðasta Þriðjudagsfyrirlestur ársins undir yfirskriftinni Að byggja stafræna textílbrú milli fortíðar og framtíðar. Aðgangur er ókeypis.

Í fyrirlestrinum mun Ragnheiður fjalla um Textílmiðstöð Íslands á Blönduósi, sögu þess, hlutverk og markmið. Miðstöðin leggur áhersla á nýsköpunar-, þróunar- og samstarfsverkefni sem stuðla að atvinnuuppbyggingu í tengslum við textíl, menningu og sögu svæðisins. Hún fer jafnframt yfir það öfluga rannsóknar- og þróunarstarf sem þar fer fram og segir frá Textíl Labinu og alþjóðlegum vinnustofum fyrir listamenn. Einnig verður fjallað um aðstöðu Textílmiðstöðvarinnar í gamla Kvennaskólanum, sem og húsnæði Textíl Labsins að Þverbraut 1.  

Ragnheiður Björk Þórsdóttir stundaði nám við Myndlistar- og handíðaskóla Íslands, J.F.K. University, Kennaraháskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Ragnheiður var myndmenntakennari í Síðuskóla í nokkur ár og kenndi við Verkmenntaskólann á Akureyri í 30 ár. Síðustu sjö árin hefur hún verið í hlutastarfi sem sérfræðingur á sviði vefnaðar og textíls við Textílmiðstöð Íslands, kennt vefnað við Hallormsstaðarskóla og Myndlistaskólanum í Reykjavík. Ragnheiður hefur einnig verið starfandi textíllistamaður og rekið vinnustofu á Akureyri en hefur nú fært hana til Grenivíkur. Hún er meðlimur í Textílfélagi Íslands, SÍM, Félagi íslenskra vefnaðarkennara og vefara og hefur tekið þátt í sýningum hérlendis og erlendis síðastliðin 40 ár.           

Þriðjudagsfyrirlestrarnir eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Myndlistarfélagsins og Gilfélagsins. Þeir munu hefjast á nýjan leik í febrúar á komandi ári.