Flýtilyklar
Síðasti Þriðjudagsfyrirlestur ársins: Ragnheiður Björk Þórsdóttir
Þriðjudaginn 4. nóvember kl. 16.15 heldur Ragnheiður Björk Þórsdóttir, textíllistamaður, síðasta Þriðjudagsfyrirlestur ársins undir yfirskriftinni Að byggja stafræna textílbrú milli fortíðar og framtíðar. Aðgangur er ókeypis.
Í fyrirlestrinum mun Ragnheiður fjalla um Textílmiðstöð Íslands á Blönduósi, sögu þess, hlutverk og markmið. Miðstöðin leggur áhersla á nýsköpunar-, þróunar- og samstarfsverkefni sem stuðla að atvinnuuppbyggingu í tengslum við textíl, menningu og sögu svæðisins. Hún fer jafnframt yfir það öfluga rannsóknar- og þróunarstarf sem þar fer fram og segir frá Textíl Labinu og alþjóðlegum vinnustofum fyrir listamenn. Einnig verður fjallað um aðstöðu Textílmiðstöðvarinnar í gamla Kvennaskólanum, sem og húsnæði Textíl Labsins að Þverbraut 1.
Ragnheiður Björk Þórsdóttir stundaði nám við Myndlistar- og handíðaskóla Íslands, J.F.K. University, Kennaraháskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Ragnheiður var myndmenntakennari í Síðuskóla í nokkur ár og kenndi við Verkmenntaskólann á Akureyri í 30 ár. Síðustu sjö árin hefur hún verið í hlutastarfi sem sérfræðingur á sviði vefnaðar og textíls við Textílmiðstöð Íslands, kennt vefnað við Hallormsstaðarskóla og Myndlistaskólanum í Reykjavík. Ragnheiður hefur einnig verið starfandi textíllistamaður og rekið vinnustofu á Akureyri en hefur nú fært hana til Grenivíkur. Hún er meðlimur í Textílfélagi Íslands, SÍM, Félagi íslenskra vefnaðarkennara og vefara og hefur tekið þátt í sýningum hérlendis og erlendis síðastliðin 40 ár.
Þriðjudagsfyrirlestrarnir eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Myndlistarfélagsins og Gilfélagsins. Þeir munu hefjast á nýjan leik í febrúar á komandi ári.
Leit