Þriðjudagsfyrirlestur 3. febrúar: Auður Aðalsteinsdóttir

Þriðjudaginn 3. febrúar kl. 16:25 heldur Auður Aðalsteinsdóttir, bókmenntafræðingur þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu undir yfirskriftinni „Listakonan Drífa Viðar“. Aðgangur er ókeypis.

Efni fyrirlestursins er ný bók um myndlistarkonuna, rithöfundinn og gagnrýnandann Drífu Viðar (1920-1971). Auður er einn af ritstjórum hennar, ásamt Kristínu Guðrúnu Jónsdóttur og Elísabetu Gunnarsdóttur.

Drífa Viðar var fjölhæf listakona sem lá mikið á hjarta. Hún málaði myndir og teiknaði, samdi ljóð og sögur, var myndlistar- og bókmenntagagnrýnandi og tónlistin skipaði alltaf mikilvægan sess í lífi hennar. Þar að auki var hún pólitísk baráttukona.Í fyrirlestrinum verður sagt frá myndlistarmenntun Drífu í New York og París, fjallað um nokkur af málverkum hennar og þá fagurfræðilegu stefnu sem lesa má úr listgagnrýni hennar. Þá verður einnig lesið upp úr bréfum Drífu, sem lýsa bæði tíðarandanum og persónulegri afstöðu hennar til listarinnar.

Auður Aðalsteinsdóttir er lektor í umhverfishugvísindum og forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands í Þingeyjarsveit. Hún hefur skrifað fjölda fræðigreina um íslenskar samtímabókmenntir og er jafnframt höfundur bókanna Þvílíkar ófreskjur: vald og virkni ritdóma á íslensku bókmenntasviði (2021) og Hamfarir í bókmenntum og listum (2023).