Flýtilyklar
Fréttasafn
Þriðjudagsfyrirlestur: Pi Bartholdy - Listljósmyndun Pi
06.02.2015
Þriðjudaginn 10. febrúar kl. 17 heldur danski listljósmyndarinn Pi Bartholdy fyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi undir yfirskriftinni Listljósmyndun Pi. Þar mun hún ræða fyrri verk sín en einnig þau sem hún er að vinna að þessi misserin. Pi er útskrifuð frá danska listljósmyndaskólanum Fatamorgana 2011 og úr mastersnámi frá Escuela de Fotografia Y Centro de Imagen í Madrid 2012.
Þetta er fjórði Þriðjudagsfyrirlestur ársins og sem fyrr fara þeir fram í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi á hverjum þriðjudegi kl. 17. Aðgangur er ókeypis.
Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri. Aðrir fyrirlesarar vetrarins eru Margeir Dire Sigurðsson, Guðmundur Heiðar Frímannsson, Elísabet Ásgrímsdóttir, Katrín Erna Gunnarsdóttir, María Rut Dýrfjörð, Jón Páll Eyjólfsson og Hildur Friðriksdóttir.
Lesa meira
Thora opnar í vestursalnum
05.02.2015
Laugardaginn 7. febrúar kl. 15 verður opnuð í vestursal Listasafnsins á Akureyri sýning Thoru Karlsdottur Skilyrði: Frost. Á sýningunni er snjórinn í aðalhlutverki. Hann er óútreiknanlegur og breytir landslaginu; skapar nýja fleti, veitir birtu og býr til skugga. Nýjar myndir birtast á meðan þær gömlu leggjast í dvala enda er freistandi að nýta snjóinn í listsköpun og þau ótal tækifæri og möguleika sem hann skapar. Lifandi listaverk sem er síbreytilegt – tilvist með skilyrði um frost.
Lesa meira
Þriðjudagsfyrirlestur: Arnar Ómarsson - Skáldið og staðreyndin
31.01.2015
Þriðjudaginn 3. febrúar kl. 17 heldur myndlistarmaðurinn Arnar Ómarsson fyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi undir yfirskriftinni Skáldið og staðreyndin. Þar mun Arnar ræða fyrri verk og hugmyndir sem byggja grunninn að næstu sýningu hans, MSSS, sem opnar í vestursal Listasafnsins laugardaginn 28. febrúar næstkomandi. Viðfangsefni sýningarinnar er hlutverk skáldskapar í mótun staðreynda með áherslu á tækni og geimrannsóknir.
Lesa meira
Kristján Pétur opnar í vestursalnum
30.01.2015
Laugardaginn 31. janúar kl. 15 verður opnuð í vestursal Listasafnsins á Akureyri sýning Kristjáns Péturs Sigurðssonar, Þriggja radda þögn og Rauða. Á sýningunni gefur að líta skúlptúrinn Rauða Þögn, en sú þögn hefur ferðast víða og alltaf þráð að komast inn í listasafn, og mynd af tónverki þar sem þögn er útsett fyrir píanó og selló. Vegna þess að nostra þarf við þagnir mun ásýnd verksins taka daglegum breytingum á sýningartímanum. Á lokamínútum sýningarinnar mun Kristján Pétur rjúfa þögnina með söng.
Lesa meira
Hádegisleiðsögn í Listasafninu
28.01.2015
Leiðsögn verður í Listasafninu á Akureyri fimmtudaginn 29. janúar kl. 12.15 - 12.45 um yfirlitssýningu Elísabetar Geirmundsdóttur, Listakonan í Fjörunni. Guðrún Pálína Guðmundsdóttir, fræðslufulltrúi, og Ásgrímur Ágústsson, sonur Elísabetar, taka á móti gestum og fræða þá um sýninguna og einstaka verk. Aðgangur er ókeypis.
Lesa meira
Þriðjudagsfyrirlestur: Hundur í óskilum - Hundalógík
24.01.2015
Þriðjudaginn 27. janúar kl. 17 heldur hljómsveitin Hundur í óskilum, skipuð þeim Hjörleifi Hjartarsyni og Eiríki Stephensen, fyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi undir yfirskriftinni Hundalógík. Þar munu þeir félagar velta fyrir sér Hundi í óskilum og hvort eitthvað sé á bak við hann.
Lesa meira
Opnun á laugardaginn í vestursalnum
22.01.2015
Laugardaginn 24. janúar kl. 15 verður opnuð í vestursal Listasafnsins á Akureyri sýningin Hola í vinnslu. Þar sýna nemendur úr fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri verk í sköpun undir leiðsögn Jónu Hlífar Halldórsdóttur, myndlistarmanns, stundakennara við Listaháskóla Íslands og Myndlistaskólann á Akureyri og formanns Sambands íslenskra myndlistarmanna.
Lesa meira
Leiðsögn um sýninguna Svelgir
20.01.2015
Leiðsögn verður í Listasafninu, Ketilhúsi, fimmtudaginn 22. janúar, kl. 12.15 - 12.45 um sýningu Rósu Sigrúnar Jónsdóttur, Svelgir, sem opnaði um síðustu helgi. Guðrún Pálína Guðmundsdóttir fræðslufulltrúi tekur á móti gestum og fræðir þá um sýninguna og einstaka verk. Aðgangur er ókeypis.
Lesa meira
Þriðjudagsfyrirlestur fellur niður
20.01.2015
Þriðjudagsfyrirlestur Hildar Friðriksdóttur, Hin fullkomna kvenímynd, sem átti að fara fram í dag kl. 17, fellur niður vegna veikinda. Ný dagsetning verður auglýst síðar. Beðist er velvirðingar á þessari breytingu.
Lesa meira
Smiðja í gerð snjóskúlptúra
14.01.2015
Í tengslum við sýninguna Listakonan í Fjörunni, sem nú stendur yfir í Listasafninu, verður haldin smiðja í gerð snjóskúlptúra í Listagilinu, laugardaginn 17. janúar kl. 13-16. Smiðjan er í boði Norðurorku og er opin börnum og fullorðnum. Listamaðurinn og formaður Sambands Íslenskra Myndlistamanna, Jóna Hlíf Halldórsdóttir, mun þá taka á móti fólki á öllu aldri og kenna því að gera skúlptúra úr snjónum í Listagilinu. Allir velkomnir.
Lesa meira
Leit

