Flýtilyklar
Fyrstu opnanir ársins 2026
Fyrstu opnanir ársins 2026 í Listasafninu fara fram laugardaginn 31. janúar kl. 15, þegar tvær sýningar opna á 4. hæð safnsins. Annars vegar er um að ræða sýningu Guðmundar Ármanns, Aðflæði, og hins vegar sýningu Bjarkar Viggósdóttur, Hreyfing fyrir sjón.
Guðmundur Ármann - Aðflæði
Guðmundur Ármann (f. 1944) á að baki langan feril í myndlist og myndlistarkennslu. Hann hefur haldið um 52 einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga hér heima og erlendis. Guðmundur lauk prentmyndasmíðanámi 1962, útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1966 og nam við Valand listaháskólann í Gautaborg frá 1966 til 1972. Hann flutti til Akureyrar 1972 til að starfa sem myndlistarkennari, kláraði kennararéttindanám við Háskólann á Akureyri 2002 og lauk M.Ed. prófi í menntunarfræðum frá sama skóla 2013.
Aðflæði er yfirlitssýning á 65 ára ferli Guðmundar og er elsta myndin frá 1970. Sýningin einkennist af fjölbreyttri leit listamannsins að túlkunarformi – frá raunsæi til abstrakts – þar sem mótífið hverfur smám saman uns eftir stendur einungis línan, formið og liturinn. Tvívíð myndlist – málverk, grafík og teikningar – eru í aðalhlutverki, en einnig má sjá nokkur þrívíð verk úr velktum viðarbútum sem rak á fjörurnar.
Björk Viggósdóttir - Hreyfing fyrir sjón
Björk Viggósdóttir fæddist á Akureyri 1982. Hún lauk B.A. námi í myndlist 2006 frá Listaháskóla Íslands, stundaði meistaranám í hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands og lauk námi í listkennslufræðum við Listaháskóla Íslands 2021.
Hún hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum hér á landi og víða erlendis. Þar á meðal í Bandaríkjunum, Suður-Ameríku, Evrópu og Asíu. Á meðal einkasýninga hennar á Íslandi má nefna Flugdreka í Listasafni Reykjavíkur, Óendanleg tilviljun í Þulu í Marshallhúsinu og Aðdráttarafl, hringlaga hreyfing í Hafnarborg.
Björk skapar gagnvirkar upplifunar innsetningar, þar sem eldri tækni blandast nútíma tækni í myndlist. Listaverkin eru oft hlaðinn táknmyndum og verkin sett saman úr fjölbreyttum efnivið. Björk notar oft marga miðla í innsetningunum, t.d video hljóð og skúlptúr. Innsetningarnar mynda samhljóm milli efna og tækni í sjónrænni upplifun og kalla fram skynjun í sýningarrýminu, myndmálið er oft túlkað þannig að leikið er með öll skynfæri áhorfandans. Galdur upplifunarinnar, krafturinn sem myndast þegar allir miðlarnir mynda samhljóm verður eins og hljóðfæraleikarar skynjunarinnar þar sem hreyfing fyrir sjón verður í forgrunni.
Leit