Gjörningur á opnun

Gjörningur á opnun
Laura Ortman.
Fimmtudagskvöldið 27. nóvember kl. 20 verða tvær sýningar opnaðar í Listasafninu á Akureyri: Samsýningin Viðbragð og sýning á teikningum og skissum Jóhannesar Sveinssonar Kjarvals, Undir berum himni. Fimmtán íslenskir og erlendir listamenn taka þátt í samsýningunni, þar á meðal fiðluleikarinn og tónskáldið Laura Ortman sem mun einnig fremja gjörning á opnuninni kl. 20.40.

Í verki sínu, My Soul Remainer, á sýningunni Viðbragð spilar Ortman á rafmagnsfiðlu í landslagi suðvesturríkja Bandaríkjanna og fléttar saman klassískri tónlistarhefð og vísunum í tónlist frumbyggja, en hún er af White Mountain Apache ættbálkinum. Hún hóf feril sinn sem myndlistarmaður áður en hún ákvað að einbeita sér að tónlist og lýsir listsköpun sinni sem „hljóðskúlptúrum“. Ortman hefur haslað sér völl í Bandaríkjunum síðastliðin ár og var meðal annars með opnunargjörning í Feneyjartvíæringnum í bandaríska skálanum 2024.