Jón Þorsteins - 12 tóna korterið

Síðasta TÓLF TÓNA KORTÉR ársins fer fram laugardaginn 6. desember kl. 15 og 16.

Jón Þorsteinn Reynisson mun í aðventuhúminu, fyrir milligöngu harmoniku sinnar, leiða okkur um tónlistarheim Sofiu Gubaidulinu. Hún er eitt mesta tónskáld harmonikutónlistar fyrr og síðar. Gubaidulina fæddist árið 1931 en lést í mars síðastliðnum.

Því er við hæfi að heiðra minningu hennar með því að gefa henni lokaorðið á TÓLF TÓNA KORTÉRINU í ár með tveimur kortérslöngum tónleikum. Jón Þorsteinn leggur einnig tónsmíðaorð í belg með frumflutningi nýs tónverks eftir sjálfan sig. Önnur eins efnisskrá dugir til að halda hvaða grýlu, hrekkjalóm eða jólaketti sem er fjarri okkur í aðdraganda jóla. Svo missið ekki af þessum einstöku aðventutónleikum!

Efnisskrá:
Fachwerk - S. Gubaidulina
De profundis - S. Gubaidulina
Nýtt tónverk ónefnt enn - Jón Þorsteinn Reynisson

Aðgangur er ókeypis, aðgengi gott og öll velkomin!