Flýtilyklar
Kateřina Blahutová frumsýnir ljósverk á föstudagskvöldið
25.08.2025
Föstudagskvöldið 29. ágúst kl. 20.30 verður ljósverkið Brot eftir tékknesku listakonuna Kateřina Blahutová frumsýnt á svölum Listasafnsins. Hægt verður að berja verkið augum til kl. 02 og svo aftur á laugardagskvöldinu kl. 20.30-02.
Kateřina Blahutová er fjölfagleg listakona og hönnuður frá Tékklandi, búsett í Reykjavík. Hún er menntuð í arkitektúr frá CTU í Prag og leikhús-og fjölmiðlafræði frá IUAV í Feneyjum á Ítalíu. Í verkum sínum kannar hún fyrst og fremst rými og ljós, bæði í raunformi og sýndarformi. Sjálfbærni, andlegir eiginleikar og samtal milli náttúru og verka mannanna eru endutekin þemu og þungamiðja í verkunum.
Verk Blahutová spanna rýmis- og umhverfisinnsetningar, sjónrænar upplifanir, sviðs- og ljósahönnun, gagnvirka list og vídeovörpun. Áherslan er á upplifun áhorfenda, sem á rætur að rekja til þverfagleika og mótast af tilvist alnetsins (e. post- internet) og afbyggingu klúbbamenningar (e. deconstructed club culture) auk sögulegs umhverfi æsku hennar.
Verkefni Blahutová hafa verið hluti af alþjóðlegum hátíðum og sýningum. Meðfram listsköpuninni hannar hún lýsingu fyrir listir, arkitektúr, leikhús og tónlist.
Leit

