Flýtilyklar
Almenn leiðsögn á laugardaginn
20.05.2025
Laugardaginn 24. maí kl. 15 verður boðið upp á leiðsögn um tvær sýningar: Tími-Rými-Efni - Þóra Sigurðardóttir og Samlífi - Heimir Hlöðversson. Aðgangur er innifalinn í miðaverði Listasafnsins.
Heimir Hlöðversson er margmiðlunarlistamaður og kvikmyndagerðarmaður. Hann hefur unnið við listsköpun og kvikmyndagerð í yfir tvo áratugi, sett upp listasýningar, gert heimildarmyndir og skapað sjón- og hljóðrænar upplifanir fyrir söfn á Íslandi og erlendis.
Samlífi er ástand í náttúrunni – hvorki upphaf né endir. Það er rými tengsla. Formin flæða hvert inn í annað, mörkin verða óljós. Hér lifa ólík öfl saman sem skarast, beygjast og bregðast hvert við öðru. Áhorfandinn er ekki gestur, heldur þátttakandi – upplifunin er í tengslunum sjálfum. Hann verður hluti af verkinu á sama hátt og hann er hluti af náttúrulegu samlífi.
Þóra Sigurðardóttir er fædd og uppalin á Akureyri. Hún lauk námi frá Menntaskólanum á Akureyri, Myndlista- og handíðaskóla Íslands og framhaldsnámi í Danmörku við Det Jyske Kunstakademi. List Þóru er rannsókn á tíma, rúmi og efni. Verk hennar sýna okkur hvernig rými, líkamar og hversdagsleg efni eru tengd tíma, framrás hans og lífi okkar. Verkin byggja á tengslum við umhverfi og efni sem tími og snerting hafa sett mark á. Í list Þóru eru vísanir í tónlist, endurtekningar og takt.
Í myrkvuðu rými Listasafnsins drögumst við að dansandi „veru“ í vatni sem gæti hafa verið sótt í líkama okkar. Þar gefst kostur á að velta líkamanum fyrir sér sem dýri, kjöti, auðlind og viðfangi ímyndunarafls og íhugunar.
Leit

