Flýtilyklar
Minningarorð um Kristján Guðmundsson
Kristján Guðmundsson, myndlistarmaður, var jarðsettur þann 8. desember sl. Það var okkur, starfsfólki Listasafnsins á Akureyri, sérstakur heiður að fá að vinna með Kristjáni fyrr á þessu ári en hann var einn þeirra sem hófu sýningarárið 2025 með sýningu sinni Átta ætingar. Sýningin samanstóð af átta verkum sem urðu til innan togstreitunnar milli einskis og einhvers og bera einkenni abstrakt- og hugmyndalistar, sem var einkennandi í listsköpun Kristjáns.
Sem sjálfmenntaður myndlistarmaður og jafnframt einn af frumkvöðlum konseptlistar á Íslandi, setti hann ný viðmið þegar kom að hefðbundinni skilgreiningu á list. Hann var einn af stofnfélögum gallerý SÚM í lok 7. áratugarins og veitti því forystu fyrsta árið. Kristján var fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum árið 1982 og hlaut hin virtu Carnegie-verðlaun árið 2010, viðurkenningar sem endurspegla mikilvægi hans í bæði íslenskri og alþjóðlegri myndlistarsenu.
Þess má geta að fyrr á þessu ári eignaðist Listasafnið verkið Etching 37 (2002) eftir Kristján, sem bætist í safneignina og verður varðveitt af virðingu og þakklæti til framtíðar. Það ber með sér þann einstaka hæfileika listamannsins til að sameina nákvæmni, hugmyndaflug og einfaldleika, sem gerði hvert verk hans að markverðu samtali.
Fyrir hönd Listasafnsins á Akureyri sendum við fjölskyldu hans og ástvinum innilegar samúðarkveðjur. Minningin um Kristján Guðmundsson lifir í verkunum sem hann skilur eftir og í áhrifum hans á okkur sem njótum þeirra.
Leit