Flýtilyklar
Opnun fimmtudagskvöldið 27. nóvember
Fimmtudagskvöldið 27. nóvember kl. 20 verða tvær sýningar opnaðar í Listasafninu á Akureyri: Samsýningin Viðbragð og sýning á teikningum og skissum Jóhannesar Sveinssonar Kjarvals, Undir berum himni. Í tengslum við fyrrnefndu sýninguna fremur bandaríska listakonan Laura Ortman gjörning kl. 20.40.
Samsýningin Viðbragð beinir athygli að skapandi viðbrögðum sem grundvallareiginleika lífs og að mikilvægi listarinnar þegar tekist er á við breytta heimsmynd vegna loftslagsbreytinga og annarra umhverfisógna. Með visthverfa hugsun að leiðarljósi eru meginþemun samtengingar, flókin kerfi og fjölbreytileiki. Verk sýningarinnar kanna umbreytingar og óskýr mörk hins innra og ytra, náttúru og menningar. Tengsl af ýmsu tagi eru í brennidepli, meðal annars samskipti sem spanna vítt róf, allt frá valdníðslu og óréttlæti til umhyggju og ábyrgðarkenndar, sem og tilfinningaleg viðbrögð allt frá vistsorg og kvíða til vonar og sköpunargleði. Ólíkur menningarlegur bakgrunnur þátttakenda kemur fram í verkum þeirra, en megináherslan er á margvíslegar tengingar milli þeirra og sameiginlegar hnattrænar áskoranir.
Þátttakendur: Angela Snæfellsjökuls Rawlings, Aurora Robson, Bolatta Silis-Hoeg, Björg Eiríksdóttir, Hákon Oddsson, Hekla Dögg Jónsdóttir, Hildur Hákonardóttir, Jóna Hlíf Halldórsdóttir, Kristinn Már Pálmason, Laura Ortman, Peter Holst Henckel, Rún Árnadóttir, Sigga Björg Sigurðardóttir, Sigrún Hrólfsdóttir og Þórdís Aðalsteinsdóttir.
Nemendur úr Þingeyjarskóla taka einnig þátt í sýningunni: Ellý Hjaltalín Hayhurst, Noah Hjaltalín Hayhurst, Bjartur Ingi Gunnarsson, Hildur Ósk Gunnarsdóttir, Þór Sæmunsson, Hrefna Bragadóttir.
Sýningarstjórar: Auður Aðalsteinsdóttir og Þórdís Aðalsteinsdóttir.
Teikningar og skissur Kjarvals
Jóhannes Sveinsson Kjarval (1885-1972), einn ástsælasti listamaður þjóðarinnar, fæddist í Vestur Skaftafellssýslu, en ólst upp á Borgarfirði eystra frá fjögurra ára aldri. Kjarval ferðaðist heima og erlendis í upphafi síðustu aldar og vann ýmis störf samhliða listsköpun sinni. Hann stundaði fyrst nám hjá Ásgrími Jónssyni í Reykjavík, en hóf svo skólagöngu í Konunglega listaháskólanum í Kaupmannahöfn sem lauk 1917.
Kjarval undi sér vel einn í náttúrunni, hafðist jafnan við í tjaldi og vann verk undir berum himni. Í hvammi einum í landi Ketilsstaða í Hjaltastaðaþinghá stendur sumarhús listamannsins, en þar málaði hann m.a. eftirminnileg landslagsverk. Teikningar hans af borgfirsku alþýðufólki teljast einnig á meðal hans þekktustu verka.
Verkin á sýningunni hafa mörg hver ekki verið sýnd almenningi áður og eru flest í eigu Minjasafns Austurlands, sem einnig hefur umsjón með sumarhúsi listamannsins.
Sýningin er unnin í samstarfi við Minjasafn Austurlands.
Leit