Samstarfssamningur um menningarmál framlengdur

Samstarfssamningur um menningarmál framlengdur
Frá athöfninni í Listasafninu í gær.

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, undirrituðu í gær samkomulag um eins árs framlengingu á samstarfsamningi bæjarins og ríkisins um menningarmál og gildir hún út árið 2024.

Samkvæmt endurnýjuðum samningi hækkar framlag ríkisins til hans um 20 m.kr. og Akureyrarbær hækkar framlög sín til verkefna hans um sömu fjárhæð. Meginmarkmið samtarfsins er að efla atvinnustarfsemi í listum á Akureyri og Norðurlandi og byggir samningurinn á fjórum meginverkefnum: Starfsemi Leikfélags Akureyrar, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, Menningarhússins Hofs sem Menningarfélag Akureyrar hefur með höndum og loks starfsemi Listasafnsins á Akureyri sem rekið er af Akureyrarbæ.

Ráðherra segir af þessu tilefni að ríkt menningarlíf sé mikilvægur hluti af innviðum hvers samfélags og að hún hyggist skipa starfshóp um framtíðarþróun samstarfs bæjarins og ríkisins í menningarmálum. Ráðherra segir mikilvægt að nýta tækifærið og tengja þessa atvinnustarfsemi betur við opinbera stefnumótun í viðkomandi málaflokkum. Bæjarstjóri tekur undir orð ráðherra og bætir við: „Það er ljóst að Akureyrarbær gæti ekki staðið jafn myndarlega við bakið á þeirri starfsemi sem hér um ræðir ef ekki væri fyrir stuðning ríkisins. Ég tel mikilvægt að tengja þróun samstarfsins við hugmyndir um Akureyri sem svæðisborg og ég tel að það muni gefa okkur, sem þjóð, tilefni til að efla það enn frekar.“