Skapandi vinnustofa með Barbara Long

Skapandi vinnustofa með Barbara Long
Barbara Long.
Mánudaginn 29. september kl. 16-18 verður boðið upp á tilraunakennda og skapandi vinnustofu með bresku myndlistarkonunni og meðferðaraðilanum Barbara Long. Vinnustofan ber yfirskriftina The Cloth that Binds og fer fram á ensku. Aðeins er pláss fyrir 12 fullorðna og er þátttökugjaldið 8.000 kr. Skráning fer fram á heida@listak.is.

Í vinnustofunni verður samband fólks við heimilistextíl, fataleppa og heimilið kannað. Allt efni er fáanlegt á staðnum, en þátttakendur eru beðnir um að taka með sér gamlan heimilistextíl eða gamalt fataefni að eigin vali. Long mun jafnframt ræða hugrenningar sínar og sköpunarferlið á bak við sýninguna Himnastigi, sem verður opnuð í Listasafninu laugardaginn 27. september.

Barbara Long er fjölfagleg listakona, listmeðferðaraðili og kennari. Listsköpun hennar spannar stórar gagnvirkar textíl-innsetningar, smærri verk úr heimilis-hör og hverful verkefni í náttúrunni. Hún hefur mikinn áhuga á að deila sköpunarferli sínu með öðrum og hjálpa fólki að finna sinn eigin sköpunarkraft og heldur reglulega vinnustofur fyrir mismunandi hópa. Sem listmeðferðaraðili hefur Long unnið með konum og félagslega einangruðum fjölskyldum, sérstaklega innflytjendum og flóttafólki, auk þess að hafa til meðferðar skjólstæðinga með hegðunarvandamál. Hún er með meistaragráðu í listmeðferðarfræðum og framhaldsgráðu í hópsálfræði frá Pompeu Fabra háskólanum í Barcelona á Spáni.