Þriðjudagsfyrirlestur: Jón Haukur Unnarsson

Þriðjudagsfyrirlestur: Jón Haukur Unnarsson
Jón Haukur Unnarsson.

Þriðjudaginn 21. október kl. 16.15 heldur Jón Haukur Unnarsson, tónlistarmaður, Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu undir yfirskriftinni Mannfólkið breytist í slím. Aðgangur er ókeypis.

Efni fyrirlestursins er menningarhátíðin Mannfólkið breytist í slím sem hefur verið haldin árlega á Akureyri frá 2018. Að hátíðinni stendur listasamsteypan MBS sem er auk þess sjálfstæð tónlistarútgáfa frá 2010. Á fyrirlestrinum mun Jón Haukur fara yfir starfsemi MBS með áherslu á menningarhátíðina auk þess að velta fyrir sér hlutverki sjálfstæðra menningarverkefna, mikilvægi þeirra og slagkrafts innan samfélaga. 

Jón Haukur er tónlistarmaður og menningarstjórnandi frá Akureyri sem hefur verið virkur í listasenu landsins síðan 2010. Á þeim tíma hefur hann leikið með fjölda hljómsveita og listafólks auk þess að koma að uppsetningu margvíslegra menningarverkefna. Jón Haukur lærði slagverk við Tónlistarskólann á Akureyri og Listaháskólann í Havana, lauk námi í hljóðtækni við Tækniskólann 2019 og Audio Engineering við SAE Institute í Berlín 2024. Sem stendur er hann í meistaranámi í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst. Á ferli sínum hefur hann fengist mest við trommu- og slagverksleik en einnig framleiðslu á tónlist, tónsmíðar, upptökur, hljóðvinnslu, hljóðhönnun, skipulagningu viðburða auk þess að flytja nútímadans og fremja gjörninga.

Þriðjudagsfyrirlestrarnir eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Myndlistarfélagsins og Gilfélagsins. Næsta fyrirlestur heldur Elín Berglind Skúladóttir, sjónlistakennari og listakona, þriðjudaginn 28. október.