Þriðjudagsfyrirlestur: Zoe Chronis

Þriðjudaginn 24. október kl. 17-17.40 heldur bandaríska myndlistarkonan Zoe Chronis Þriðjudagsfyrirlestur undir yfirskriftinni Chance-based Editing with a MiniDV Camcorder.

Þar mun hún fjalla um stafræna klippingu sem aðeins er hægt að framkvæma með MiniDV upptökuvél. Þessa aðferð notar hún til að taka upp myndbandsdagbækur þar sem upptaka nýrrar færslu eyðileggur fyrri færslu. Verk Chronis fela oft í sér gallaðan myndbandsbúnað og klippingu, sem gerir mörkin milli ásetnings og tilviljunar óskýr. Á fyrirlestrinum mun hún einnig fjalla um áhrif tilraunakvikmyndagerðar Dziga Vertov, Rose Lowder og Michael Snow.

Zoe Chronis stundaði nám í mannfræði og kvikmyndum og lauk MFA-gráðu í myndlist við háskólann í Pennsylvaníu. Hún vann í 8 ár fyrir samfélagsmiðlasamtök í New York áður en hún flutti til Íslands á þessu ári. Verk Chronis voru síðast sýnd af @filmdiarynyc 2022. 

Enginn aðgangseyrir er á fyrirlesturinn sem fer fram á ensku og er samstarfsverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri og Gilfélagsins. Aðrir fyrirlesarar haustsins eru Magnús Helgason, myndlistarmaður, Kristín Elva Rögnvaldsdóttir, myndlistarkona, Heather Sincavage, gjörningalistakona og Rainer Fischer, myndlistarmaður.